Tölfræðin stendur ekki með jólageitinni

Tignarleg er hún, jólageitin sem stendur við Ikea.
Tignarleg er hún, jólageitin sem stendur við Ikea. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í einungis eitt ár af sex hefur jólageit Ikea staðið af sér veður, vind og varga sem vilja leggja eld að henni. Jólageitin er sum sé komin upp sjöunda árið í röð við Ikea og það er spurning hvernig henni muni reiða af í ár. Það er ljóst að tölfræðin stendur ekki með þessari himinháu geit sem er gerð úr hálmstráum og prýdd fallegri ljósaseríu, ekki frekar en sænskum systrum hennar sem hafa ósjaldan orðið eldi að bráð.

Í Svíþjóð er sá siður eða frekar sá ósiður land­læg­ur að kveikja í jóla­geit­un­um sem eru reistar víða um land og hefur hann borist hingað til landsins. Í ár fagnar jólageitin í borginni Gävle í Svíþjóð fimmtugsafmæli sínu. Kveikt hefur verið í henni 35 sinnum á því tímabili og síðast var það í fyrra en hún er vel afgirt og er vöktuð með myndavélum. Hinn 27. nóvember verður haldið upp á afmæli jólageitarinnar með formlegum hætti

Í fyrra urðu ljósaperur íslensku jólageitinni að falli þegar kviknaði í þeim. Engir brennuvargar voru þar á ferð eins og óttast var í fyrstu.

Frétt mbl.is: Serí­an varð geit­inni að falli

Í ljósi þess að það kviknaði í henni í fyrra voru ljósaseríurnar endurnýjaðar. Ljósin á seríunum eru um 5.000 talsins og lýsir hún því upp tilveruna á planinu við Ikea. Jólageitin er kirfilega afgirt með rafmagnsgirðingu til að halda spellvirkjum frá henni. Enginn aukaviðbúnaður er við geitina þetta árið heldur eru öryggismyndavélar á svæðinu sem hafa reynst vel við upplýsa um skemmdarverk sem hafa verið unnið á henni, að sögn Guðnýjar Camillu Aradóttur, markaðs- og umhverfisfulltrúa.

Tvisvar hefur verið kveikt í jólageitinni, það var árið 2010 og árið 2012. Hins vegar hefur kári feykt henni jafnmörgum sinnum um koll. Það má því segja að íslensk veðrátta sé jólageitinni jafnskæð og brennuvargar hér á landi.

Fyrsta jólageitin var sett upp árið 2010. Hún var 4,5 metrar á hæð og varð brennuvörgum að bráð aðfaranótt Þorláksmessu.

Frétt mbl.is: Grunaðir um geitarbrennu

Ári síðar leit mun hærri jólageit dagsins ljós en hún var 6,2 metrar á hæð. Hún fauk um koll en var reist við og stóð fram yfir jól.

Brennuvargar létu á sér kræla árið 2012 og kveiktu í geitinni í byrjun desember en hún var sett upp í nóvemberbyrjun. Strax var hafist handa við að reisa nýja og hún fór upp viku síðar, enn stærri og með nýjum seríum sem töldu 5.000 perur.

Frétt mbl.is: Ný jólageit rís við IKEA

Næsta ár, árið 2013, var sett upp rafmagnsgirðing til að hefta för brennuvarga en þá kom kröftugur kári og blés henni um koll. Hún var reist við á nýjan leik og kirfilega fest niður í þetta skipti.

Frétt mbl.is: Jólageitin óveðrinu að bráð

Árið 2014 var fyrsta árið sem geitin fékk að standa frá október og fram yfir jól. Hvorki vindar, veður né vargar náðu að vinna á henni.

Í fyrra reis jólageitin upp eins og fuglinn Fönix eftir að ljósaserían hafði kveikt í henni. Hún stóð fram yfir jól og er mætt á sinn stað í dag.

Jólageitin í Gävle í Svþjóð fagnar 50 afmæli sínu í …
Jólageitin í Gävle í Svþjóð fagnar 50 afmæli sínu í ár. Af vef Wikipedia
mbl.is