Veðrið nær hámarki upp úr miðnætti

Veðrið nær hámarki á vesturhluta landsins upp úr miðnætti.
Veðrið nær hámarki á vesturhluta landsins upp úr miðnætti. Skjá­skot af Win­dytv.com

„Það er heldur að bæta í vindinn hérna vestanlands,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. Mikill vindur var fyrrih luta dags á vesturhluta landsins og er hann aftur að aukast núna síðla kvölds.

Það má ekki gleyma því að það hvessir talsvert á Norðurlandi í nótt. Það verður eiginlega sunnanátt sem hallast aðeins til suðvesturs með morgninum.“ Norðlendingar mega búast við hvassviðri í fyrramálið.

Líkt og fyrr í dag er veðrið verst á Snæfellsnesinu en þar hefur blásið hressilega í allan dag. Vindurinn þar er heldur að aukast með kvöldinu en ætti að ná hámarki upp úr miðnætti. „Þá fer smám saman að draga úr veðrinu vestanlands þó að það verði áfram hvasst fram undir morgun.“ En áfram er búist við snörpum vindhviðum við fjöll, jafnvel yfir 40 metra á sekúndu.

Mikil úrkoma var fyrri hluta dags og var varað við grjóthruni úr bröttum hlíðum á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem úrkoma hefur verið mest. 

Á meðan óveður hefur gengið yfir Vesturland hafa íbúar norðan heiða notið veðurblíðu í dag. Hitinn fór í 17 stig á Ólafsfirði og Skjaldþingsstöðum og í 16,6 gráður á Möðruvöllum.

„Erum við ekki ánægðir með það? Þetta er eins og sumarhiti. Þetta er þessi hnjúkaþeyr; hvöss og rök átt af fjöllunum þá rýkur hitinn stundum upp,“ sagði Þorsteinn. „Það hefði alveg verið hægt að vera á stuttbuxum fyrir norðan.“

 Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert