Fiskútflytjendur áberandi í gögnunum

AFP

Ýmis dæmi eru um að fyrirtæki tengd sjávarútvegi eða einstaklingar tengdir þeim hafi nýtt sér félög á aflandseyjum. Áberandi í þeim hópi eru einstaklingar tengdir fyrirtækjum í fiskútflutningi. Þetta kemur fram í Fréttatímanum í dag en umfjöllunin er unnin í samstarfi við fyrirtækið Reykjavík Media ehf. og byggð á upplýsingum úr svonefndum Panama-skjölum.

Fram kemur í fréttinni að í gögnunum, sem koma frá panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca, sé meðal annars að finna útgerðarmenn, fiskútflytjendur, skipasala og einn fisksala á Íslandi. Þar segir enn fremur að gögnin sýni að notkun á aflandsfélögum í röðum þessara aðila hafi ekki hætt í bankahruninu þar sem mörg gagnanna séu frá árunum 2010-2014.

Meðal annars er fjallað um aflandsfélögin Norys Capital Ltd., Becot Holding S.A og Elite Seafoods Panama Corp í eigu Ellerts Vigfússonar fiskútflytjanda. Hann sé hvað umsvifamestur af íslenskum aðilum tengdum sjávarútvegi í skjölunum. Eitt af félögum Ellerts, Norys Capital, hafi fengið lánaðar 850 milljónir króna frá Landsbankanum í Lúxemborg árið 2002.

Viðskipti tengd aflandsfélaginu Freezing Point Corp séu einnig áberandi í gögnunum en félagið er í eigu Sigurðar Gísla Björnssonar, framkvæmdastjóra fiskútflutningsfyrirtækisins Sæmarks, samkvæmt fréttinni. Ekki náðist í Sigurð vegna málsins en Ellert sagðist ekki telja ástæðu til þess að ræða um félögin í hans eigu við blaðamann Fréttatímans.

Félagið ekki notað í rekstri fyrirtækisins

Félagið World Wide Seafood Trading and Consulting Limited var stofnað á Bresku jómfrúareyjum árið 2001 af hjónunum Laufey Sigurþórsdóttur og Björgvin Kjartanssyni sem reka fyrirtækið Hamrafell í Hafnarfirði. Haft er eftir Laufeyju að félagið hafi ekki tengst rekstri Hamrafells og engin slík félög hafi verið notuð í tengslum við fyrirtækið.

Laufey segir enn fremur að félagið hafi verið stofnað samkvæmt ráðleggingum frá Landsbanka Íslands í Lúxemburg. Ekkert skattalegt hagræði hafi verið af því að eiga félagið fyrir þau hjónin þar sem enginn auðlegðarskattur hafi verið á Íslandi á þessum tíma. Félagið hafi verið notað fyrir fé í þeirra eigu sem flutt hafi verið í félögin en síðan hafi tapast í bankahruninu.

Einnig er fjallað um aflandsfélagið Huskon International í eigu Theódórs Guðbergssonar, fiskverkanda og kaupsýslumanns í Garði. Félagið hafi verið stofnað árið 2006 í Panama. Haft er eftir Theodór að félagið hafi verið notað til þess að selja skip sem keypt hafi verið í Rússlandi. Landsbanki Íslands hafi ráðlagt notkun slíks félags í þessum viðskiptum.

Theodór hafi sagt Huskon International hafa haft íslenska kennitölu og greitt skatta hér á landi. Félagið Arctic Circle Invest kemur einnig við sögu í gögnunum en það tengist honum einnig. Það félag tengist einnig fiskútflutningsfyrirtækinu Godthaab á Nöf í Vestmannaeyjum og Árna Stefáni Björnssyni sem rekið hefur smábátaútgerðina Rakkanes.

Enn fremur er fjallað um aflandsfélög sem tengst hafi einstaklingum sem rekið hafi Sjólaskip í Hafnarfirði um árabil. Einnig félagið Aragon Partners Inc. sem sagt er tengjast útgerðarmanninum Jakobi Valgeiri Flosasyni á Bolungarvík. Haft er hins vegar eftir honum að hann kannist ekki við félagið. Ekki sé hægt að fullyrða að það sé ekki rétt.

„Ég kann ekkert í fjárfestingum

Félagið Hornblow Continental Corp. er einnig í gögnunum sem sagt er í eigu Kristjáns Vilhelmssonar, útgerðarmanns í Samherja. Nafn Þorsteins Vilhelmssonar, bróður hans, sé þar einnig vegna félagsins Cliffs Investments. Þá hafi Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, tengst tveimur félögum.

Útgerðarmaðurinn Örn Erlingsson er einnig í Panamaskjölunum samkvæmt umfjöllun Fréttatímans en hann rak útgerðina Sólbakka ehf. Einn fisksali er í gögnunum segir í fréttinni. Kristján Berg Ásgeirsson sem rekur Fiskikónginn í dag. Hann segir í samtali við blaðið að hann hafi selt fiskbúð og flutt til Danmerkur þar sem skattar væru háir.

Landsbanki Íslands í Lúxemborg hafi ráðlagt honum að stofna aflandsfélagið Solberg Group Ltd. Ráðleggingar á Seychelles-eyjum árið 2006. Hann hafi greitt skatta af sölunni á Íslandi en ekki viljað fara með peningana til Danmerkur. Peningarnir, um 200 milljónir króna, hafi hins vegar tapast í bankahruninu. Hann sé löngu hættur að nota félagið.

„Ég kann ekkert í fjárfestingum; ég er bara fisksali og hef alltaf bara verið það. Ég treysti öðrum mönnum til að gefa mér ráðleggingar um þetta. Ég vissi ekki betur á þessum tíma en að þetta væri í lagi. Ég var þrjátíu og tveggja ára og hélt ég gæti bara hætt að vinna og lifað á þessum peningum. Það er leiðinlegasta starf sem ég hef verið í,“ er haft eftir honum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert