Vill þunga dóma í Aurum-máli

Frá héraðsdómi í dag.
Frá héraðsdómi í dag. mbl.is/Ófeigur

Saksóknari í Aurum-málinu fór fram á Jón Ásgeir Jóhannesson verði dæmdur í 4 ára fangelsi fyrir þátt sinn í málinu, en hann var ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum við 6 milljarða lánveitingu í tengslum við kaup á hlut í skartgripafyrirtækinu Aurum. Sagði saksóknari að taka þyrfti með í reikninginn að ef Jón Ásgeir verði sakfelldur, þá hafi hann rofið skilorð vegna dóms sem hann hlaut í Baugsmálinu áður.

Vísaði saksóknari til dóma í svokölluðu Exeter-máli þegar hann rökstuddi kröfu sína um dóma í málinu, en þar hlutu hinir ákærðu 4,5 ára dóm hvor.

Saksóknari fór þá fram á að Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, fengi hegningarauka við 5 ára dóm í Stím-málinu sem hann hlaut í héraðsdómi. Það mál hefur þó ekki farið fyrir Hæstarétt eftir að hafa verið áfrýjað. Fór saksóknari fram á að refsing yfir Lárusi yrði hækkuð upp í 6 ár samtals vegna beggja málanna, en það er hámark fyrir fjármunabrot.

Magnús Arnar Arngrímsson er einnig ákærður í málinu fyrir umboðssvik vegna lánveitingarinnar og fór saksóknari fram á að hann fengi 2 ára hegningarauka við 2 ára dóm sem hann hafði fengið í svokölluðu BK-44 máli.

Frá héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Frá héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Ófeigur

Saksóknari fór þá fram á 2 til 2,5 ára dóm yfir Bjarna Jóhannessyni, sem ákærður hafi verið fyrir hlutdeild í umboðssvikum. Sagði hann að þegar málið hafi verið flutt í fyrra skipti hafi verið fram á 4 ára dóm yfir Bjarna, en eftir dóma Hæstaréttar í álíka málum hafi hann dregið úr kröfu sinni varðandi Bjarna.

Sagði saksóknari að farið væri fram á óskilorðsbundna refsingu yfir öllum, enda málið vegna hárra upphæða og brotin væru alvarleg.

mbl.is

Bloggað um fréttina