Veittu fálkum frelsi við Bláfjöll

Fálkarnir voru þrifnir og fitaðir í Húsdýragarðinum. Þeim var sleppt …
Fálkarnir voru þrifnir og fitaðir í Húsdýragarðinum. Þeim var sleppt 16. október. Skjáskot

Náttúrufræðistofnun Íslands sleppti fyrr í mánuðinum tveimur ársgömlum fálkum lausum eftir að þeir höfðu verið hýstir í Húsdýragarðinum síðustu mánuði. Um var að ræða kvenfugla sem var bjargað í sumar „grútarblautum“ eins og það er orðað í Facebook-færslu Náttúrufræðistofnunar.

Þar kemur fram að á hverju ári sé tilkynnt um sjúka eða meidda fálka til Náttúrufræðistofnunar. Komist þessir fuglar undir mannahendur er reynt að hlúa að þeim og lækna.

„Áður voru þessir fuglar hýstir á Náttúrufræðistofnun meðan þeir biðu bata en síðustu 15 árin hefur Húsdýra- og fjölskyldugarðurinn séð um þessa hlið mála. Í Húsdýragarðinum eru allar aðstæður góðar til að halda fuglana og áhugasamt starfsfólk,“ segir í færslunni en þar voru fuglarnir þrifnir og fitaðir upp. 

„Hlutverk okkar á NÍ hefur verið meira að hafa milligöngu um að koma fuglunum í örugga höfn og síðan að bataferlinu loknu að meta hvort þeir séu hæfir til að þeim sé sleppt eða ekki og svo að gefa þeim frelsi.“

Á meðfylgjandi myndbandi má sjá þegar fálkunum var sleppt en það var gert nærri Bláfjöllum. Tókst það vel í alla staði samkvæmt færslu Náttúrufræðistofnunnar.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert