„Þetta er algjörlega óásættanlegt“

Sigurður Bessason.
Sigurður Bessason. mbl.is/Sigurður Bogi

„Mér finnst þessi ákvörðun mjög slæm á alla kanta. Það er augljóst að þetta gengur þvert á allt það sem er verið að gera í samfélaginu og fólki er misboðið,“ segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar stéttarfélags og annar varaforseti ASÍ, í samtali við mbl.is.

Þing­far­ar­kaup hef­ur verið hækkað um 338 þúsund krón­ur á mánuði og verður rúm­ar 1.100 þúsund krón­ur. Laun for­seta verða 2.985 þúsund krón­ur á mánuði. Laun ráðherra verða 1.826 þúsund og laun for­sæt­is­ráðherra 2.022 þúsund kr. Laun þeirra sem þess­um embætt­um gegna hækka um ná­lægt hálfri millj­ón á mánuði. Hlut­falls­lega hækka laun for­seta minnst, eða um 20%. Laun ráðherra hækka um rúm 35% en þing­far­ar­kaupið hækk­ar mest, um 44%.

„Fyrst var kjararáði falið það verkefni að hækka alla embættismenn og síðan vísa menn í embættismennina; að það þurfi að hækka þingmenn í samræmi við það. Þetta er algjörlega óásættanlegt,“ bætir Sigurður við.

Hann telur að með þessu sé verið að gefa tóninn um það sem menn telji að sé til skiptanna í samfélaginu. „Það er bara eðlilegt að fólk upplifi það með þeim hætti. En það hjálpar okkur hins vegar ekkert. Svona hækkanir eiga ekki að eiga sér stað.“

Sigurður vill að Alþingi taki launahækkanirnar til baka. „Þessi ákvörðun er í boði Alþingis. Kjararáð vinnur samkvæmt þeim fyrirmælum sem Alþingi gefur á hverjum tíma og það er ekki á borði neins annars en Alþingis að taka þetta til baka. Alþingismenn hafa mikið talað fyrir stöðugleika í samfélaginu og segja að það skipti miklu máli að hann sé skapaður á vinnumarkaði og það sé lagður grunnur að því. Það er þá jafngott að þeir stigi fyrstu skrefin að þeim stöðugleika sjálfir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert