Hundruð barna í fátæktargildru

Skýrsla Rauða krossins ber heitið Fólkið í skugganum: athugun á …
Skýrsla Rauða krossins ber heitið Fólkið í skugganum: athugun á högum lakast settu borgarbúanna. mbl.is/Golli

Hundruð barna í Reykjavík búa við ömurlegar aðstæður og eru alin upp til varanlegar fátæktar. Þau eru  síður á leikskóla, taka minni þátt í íþrótta- og tómstundastarfi en börn foreldra í betri efnum og hafa almennt takmarkaðri aðgang að gæðum samfélagsins en börn efnameiri foreldra. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Rauða krossins í Reykjavík, sem er birt í dag.

Þar kemur meðal annars fram að „ógnvænlegur húsnæðisskortur“ magni erfiðar aðstæður berskjaldaðs fólks í Reykjavík. Skýrslan ber heitið Fólkið í skugganum: athugun á högum lakast settu borgarbúanna.

Börn sem búa við fátækt eiga minni möguleika á að …
Börn sem búa við fátækt eiga minni möguleika á að taka þátt í íþrótta- og frístundastarfi en börn efnameiri. Ljósmynd/AIPS

Í skýrslunni segir að verið sé að ala upp hundruð barna í borginni til varanlegrar fátæktar.

„Þessi börn eru síður á leikskóla, taka minni þátt í íþrótta- og tómstundastarfi en börn foreldra í betri efnum, þau stunda ekki tónlistarnám og hafa almennt takmarkaðri aðgang að félagslegum tengslanetum eða öðrum gæðum samfélagsins en börn efnameiri foreldra,“ segir í skýrslunni.

Ómar Valdimarsson mannfræðingur vann skýrsluna, sem er liður í viðleitni Rauða krossins til að kanna aðstæður í nærsamfélaginu á hverjum stað. Skýrslan er samantekt úr fyrirliggjandi rannsóknum og viðtölum við á fjórða tug sérfræðinga.

„Eitt meginmarkmið Rauða krossins í Reykjavík er að greina brýnustu þarfir fyrir starf í anda félagsins á starfssvæði sínu og haga störfum sínum eftir niðurstöðum greiningarinnar. Við höfum tekið eftir því að í höfuðborginni eru hópar fólks sem ekki kemur fram í greiningum á landsvísu og þessi skýrsla staðfestir það,“ segir Hermann Guðmundsson, stjórnarmaður í Rauða krossinum í Reykjavík og formaður verkefnisstjórnar skýrslunnar, í fréttatilkynningu.

Breiðholtið sker sig úr

Fram kemur í skýrslunni að Breiðholtið skeri sig úr öðrum hverfum borgarinnar að ýmsu leyti. Þar eru „fleiri ungar einstæðar mæður á fjárhagsstyrk, fleiri fatlaðir og fólk með geðraskanir en í öðrum hverfum borgarinnar, menntunarstig er lægra... og þar eru flestir leigjendur í félagslegu húsnæði með börn undir 18 ára aldri.“ Hins vegar kemur einnig fram í skýrslunni að í Breiðholti megi finna öflugt ungmennastarf og drífandi eldhuga.

Bent er í skýrslunni á vaxandi hóp innflytjenda á lífeyrisaldri sem eigi hvorki bótarétt hér á landi né í heimalandinu. Þá er sögð raunveruleg hætta á því að innflytjendabörn einangrist, en bent á verkefni Reykjavíkurborgar á borð við unglingasmiðjur sem taki á þeim vanda.

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ólíkt hvort þú ert kvótaflóttamaður eða kemur í gegnum hæliskerfið

Dreginn er fram aðstöðumunur milli þeirra flóttamanna sem koma til landsins í boði stjórnvalda og hinna, sem fá alþjóðlega vernd á Íslandi eftir hælisleit. Svokallaðir kvótaflóttamenn fá húsnæði við hæfi, sérstakan félagslegan stuðning og ríkuleg tækifæri til íslenskunáms. Flóttafólk sem kemur í gegnum hæliskerfið þarf hins vegar að hefja líf í nýju landi með því að byrja að leita að húsnæði á afar þröngum leigumarkaði og fær mun minni sértækan stuðning.

Vaxandi áhyggjur af stöðu karla á aldrinum 25-30 ára

Í skýrslunni er einnig fjallað sérstaklega um málefni fólks með fíknivanda, heimilislausra og með geðraskanir. Sömuleiðis kemur fram í henni að í heilbrigðis- og félagsmálakerfinu séu vaxandi áhyggjur af hópi ungra karla, 25-30 ára, sem séu atvinnulausir, þunglyndir og jafnvel í neyslu og margir á biðlistum eftir félagslegu húsnæði.

Skýrslan var gerð til að kortleggja aðstæður berskjaldaðs fólks í höfuðborginni í þeim tilgangi að geta betur brugðist við þörfum í nærsamfélaginu. Skýrslan hefur verið kynnt stjórnendum hjá Reykjavíkurborg og verður lögð til grundvallar verkefnavali Rauða krossins í Reykjavík á næstu árum, segir ennfremur í tilkynningu.

Í hópi hinna veikustu fækkar áfengissjúkum en sprautufíklunum fjölgar.
Í hópi hinna veikustu fækkar áfengissjúkum en sprautufíklunum fjölgar. AFP

Nærri tvö þúsund manns fara á hverju ári í áfengis- og/ eða fíknimeðferð. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra (95,3%) glíma við mikinn fíknivanda. Á hverjum degi eru um 130 manns, karlar og konur, í áfengis- eða fíknimeðferð á sjúkrastofnunum SÁÁ, Vogi, Vík og Staðarfelli, tugir til viðbótar sækja meðferð og stuðning á göngudeildum SÁÁ í Reykjavík og á Akureyri, auk þeirra sem leita til geðdeildar Landspítalans.

Í hópi hinna veikustu fækkar áfengissjúkum en sprautufíklunum fjölgar. Sérfræðingar hjá SÁÁ og Landspítalanum telja að í landinu séu um 700-1.000 einstaklingar sem sprauta vímuefnum í æð. Margir þeirra deyja. 1% innlagna á gjörgæsludeildir Landspítala eru vegna fylgikvilla af notkun vímuefna um æð. Niðurstaða rannsóknar læknahóps við sjúkrahúsið sýnir að hér er á ferðinni ungur sjúklingahópur „með mjög skertar lífslíkur“. Drjúgur þriðjungur þeirra er látinn innan fimm ára sem bendir til að umfang vandans sé sambærilegt og á öðrum löndum á Norðurlöndum. Sérstaklega hafa læknarnir áhyggjur af því hversu algengt er að nota uppleyst lyfseðilsskyld lyf sem vímuefni til inngjafar í æð.

mbl.is