Geta ekki lengur vikið sér undan ábyrgð

Varmárskóli í Mosfellsbæ.
Varmárskóli í Mosfellsbæ. mbl.is/Eyþór Árnason

Kennarar í Krikaskóla og Varmárskóla munu á mánudaginn afhenda bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ ályktun þar sem þeir lýsa yfir óánægju sinni með ákvörðun kjararáðs um launahækkanir, nú þegar samningar grunnskólakennara standa lausir. Nýlegur úrskurður kjararáðs sé kornið sem fylli mælinn og ríki og sveitarfélög geti ekki lengur vikið sér undan ábyrgð.

Kennarar í skólunum segjast ekki lengur hafa þolinmæði í samningaviðræðum við sveitarfélögin, þar sem starf þeirra sé „ítrekað skilgreint og mátað inn í hinar og þessar jöfnur“. Það sé að þeirra mati óháð því hvort kjararáð dragi úrskurð sinn til baka en nú hafi kennarar verið samningslausir allt of lengi.

Ályktun kennara í Krikaskóla og Varmárskóla í heild sinni:

„Kennarar í Krikaskóla og Varmárskóla upplifa nýlegan úrskurð kjararáðs um miklar launahækkanir til útvalinna aðila sem kornið sem fylli mælinn. Kennarar telja sig sinna jafn ábyrgðarmiklu starfi og alþingismenn. Auk þess er grunnskólakennurum skylt að vera með fimm ára háskólanám að baki.

Við höfum enga þolinmæði lengur í samningaviðræðum við sveitarfélögin, þar sem starf okkar er ítrekað skilgreint og mátað inn í hinar og þessar jöfnur. Þetta er algerlega óháð því hvort kjararáð dragi úrskurð sinn til baka. Við höfum nú þegar verið samningslaus alltof lengi.

Því förum við fram á, að nú verði laun grunnskólakennara leiðrétt, rétt eins og laun alþingismanna. Kominn er tími til að laun grunnskólakennara verði jöfn launum framhaldsskólakennara og annarra háskólamenntaðra stétta.

Á sama tíma og rætt er um sveigjanleika á vinnumarkaði og að gera skuli vinnuna fjölskylduvænni, er grunnskólakennurum sýnt mikið vantraust með aukinni bundinni viðveru. Við kjósum frekar að okkur sé sýnd sú virðing og traust að við séum fær um að sinna starfi okkar og það sé hlutverk skólastjóra að meta hvort við sinnum skyldum okkar.

Ofan á þetta hafa grunnskólakennarar svo þurft að taka að sér að innleiða nýja aðalnámskrá í skólastarfið, að mestu eða öllu leyti, án þess að fá til þess tíma eða greiðslur. Námskrá sem kollvarpar algjörlega áherslum í námsmati og kennslu. Samtímis stendur í kjarasamningi grunnskólakennara að greiða skuli sérstaklega fyrir umfangsmikla námskrárvinnu. Þessi vinnubrögð ríkis og sveitarfélaga hafa því bitnað á gæðum kennslu og aukið álagið á kennarastéttinni enn frekar. Engin leið er fyrir kennara að sinna undirbúningi kennslu og úrvinnslu, innan tímans sem til þess er ætlaður, því hann hefur meira eða minna farið í aðlögun námskrár og námsmats.

Hvorki sveitarfélögin né ríkið geta lengur vikið sér undan ábyrgð á erfiðu ástandi í grunnskólum landsins með því að fela sig á bak við samninganefnd sveitarfélaga. Það er gjörsamlega ólíðandi að finna fyrir þeirri þrúgandi tilfinningu að við getum ekki lifað af launum okkar.

Getur það samrýmst skólastefnu Mosfellsbæjar að bjóða grunnskólakennurum lausa samninga, engar viðræður, lág laun og mikið vinnuálag? Við höfum fengið nóg og förum fram á aðgerðir tafarlaust af hálfu sveitarfélagsins Mosfellsbæjar til að koma í veg fyrir flótta grunnskólakennara í önnur störf. Skólastarf í Mosfellsbæ er í húfi.

Grunnskólakennarar í Krikaskóla og Varmárskóla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert