UN Women safna fyrir konur í Mosúl

Starfsmaður með svokölluð sæmdarsett, sem innihalda hreinlætisvörur og fatnað.
Starfsmaður með svokölluð sæmdarsett, sem innihalda hreinlætisvörur og fatnað. Ljósmynd/UN Women

„Þær eiga ekkert. Konur hafa ekki eingöngu verið innilokaðar heima hjá sér heldur hafa þær hvorki mátt eiga né nota síma, snjallsíma, internet, horfa á sjónvarp né eiga í samskiptum við umheiminn á nokkurn hátt.“

Þetta segir Paulina Chiwangu, staðgengill svæðisstýru UN Women í Írak, sem stýrir aðgerðum UN Women í Mosúl og nærumhverfi.

Íraskar hersveitir hafa sótt að borginni síðustu vikur en hún er síðasta höfuðvígi Ríkis íslams í Írak. Þúsundir hafa flúið heimili sín.

„Þær hafa ekki síst verið sviptar lífsviðurværi sínu, reisn sinni og valdi yfir eigin lífi,“ er haft eftir Chiwangu í fréttatilkynningu frá UN Women á Íslandi. „Neyðin er mikil og mikilvægt að hlúa að þessum hópi. UN Women vinnur að því að veita konum og stúlkum á svæðinu aftur rödd, lífsviðurværi og tilgang og aðstoða þær við að koma undir sig fótunum á ný. En svo hægt sé að bregðast við neyðinni þarf fjármagn.“

UN Women starfar á svæðinu við samhæfingu aðgerða en unnið er að því að setja á laggirnar sérstaka griðastaði fyrir konur í flóttamannabúðunum. UN Women dreifir auk þess „sæmdarsettum“ til kvenna sem innihalda nauðsynjavörur á borð við hreinlætisvörur og fatnað.

„UN Women á Íslandi biðlar nú til almennings um að veita konum í Mosul og kring kraft og von með því að senda sms-ið KONUR í 1900 (1.900 kr.),“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert