Ræninginn gengur laus

Maðurinn hafði á brott með sér talsvert magn af sterkum …
Maðurinn hafði á brott með sér talsvert magn af sterkum lyfjum, rítalín og og nokkur hundruð þúsund í seðlum. mbl.is/Þórður

Enn hefur ekkert spurst til mannsins sem réðist inn í apótek í Suðurveri í Reykjavík á fimmta tímanum í gær og ógnaði starfsfólki apóteksins með hnífi. Maðurinn hafði á brott með sér talsvert magn af sterkum lyfjum, rítalín og peningum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu liggur einn undir grun en málið er enn í fullri rannsókn og verið er að skoða gögn, upptökur og fleira sem því tengist.

Maðurinn var í annarlegu ástandi þegar hann réðist inn í apótekið vopnaður hnífi og með grímu fyrir andlitinu. Lögreglan telur að hann hafi komist undan með þýfið fótgangandi. Hann var eini viðskiptavinur apóteksins en tveir starfsmenn voru við störf. Að sögn lögreglunnar brást starfsfólk apóteksins hárrétt við aðstæðum.

Þetta er annað vopnaða ránið í apóteki á stuttum tíma, en í september var ráðist inn í Bílaapótekið við Hæðasmára í Kópavogi. Málin eru afar svipuð og rannsakar lögreglan nú möguleg tengsl þeirra.

Frétt mbl.is - Vopnað rán í Suðurveri

mbl.is