Meint brot nema allt að 6 ára fangelsi

Malín og Hlín voru ákærðar í lok október vegna málsins.
Malín og Hlín voru ákærðar í lok október vegna málsins. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Meint brot sem systurnar Malín Brand og Hlín Einarsdóttir eru ákærðar fyrir af embætti héraðssaksóknara í tengslum við tvær fjárkúganir geta leitt til allt að sex ára fangelsis. Þá fer fyrrverandi samstarfsmaður Hlínar einnig fram á einkaréttakröfu upp á 1,7 milljónir í málinu. Þetta kemur fram í ákæru.

Málið kom upp í maí á síðasta ári þegar lögreglan handtók systurnar á Krýsuvíkurveg í Hafnarfirði. Höfðu þær þá sótt pakkningu í tösku sem hafði verið skilin þar eftir sem þær töldu innihalda átta milljónir sem hafði verið farið fram á að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, myndi greiða.

Í ákærunni segir að Hlín hafi ritað tvö bréf á tímabilinu 20. maí til 27. maí 2015. Fyrra bréfið setti hún inn um bréfalúguna hjá Jóhannesi Þór Skúlasyni, aðstoðarmanni Sigmundar Davíðs, en það var þó ekki opnað fyrr en eftir að systurnar höfðu verið handteknar. Seinna bréfið var póstlagt og stílað á konu Sigmundar Davíðs.

Í ákærunni kemur fram að Malín hafi prentað bæði bréfin út og auk þess skrifað nafn og heimilisfang á seinna bréfið. Í fyrra bréfinu var farið fram á 7,5 milljónir svo ekki yrðu birtar opinberlega upplýsingar sem bréfritari sagðist hafa undir höndum og vörðuðu afskipti Sigmundar Davíðs af fjárhagsmálefnum Vefpressunnar ehf., að því er fram kemur í ákærunni. Seinna bréfið var samhljóða því fyrra en upphæðin komin upp í 8 milljónir. Þá fylgdu í seinna bréfinu með fyrirmæli um afhendingarstað, afhendingarmáta, gps-hnit og ljósmyndir af afhendingarstaðnum.

Eftir að þetta mál kom upp kærði fyrrverandi samstarfsmaður Hlínar hana fyrir að hafa í apríl 2015 í félagi við systur sína haft af sér 700 þúsund krónur með hótunum um að leggja annars fram kæru til lögreglu um að hann hefði nauðgað henni.

Í ákærunni kemur fram að Malín hafi rætt við manninn nokkrum sinnum  í apríl og hann hafi svo afhent Malín fjármunina 10. og 13. apríl. Fer maðurinn fram á 1,7 milljónir í skaðabætur vegna málsins.

Báðir ákæruliðirnir eru sagðir brot á 251. grein almennra hegningarlaga, en sú grein fjallar um fjárkúgun:

„251. gr  Hver, sem hefur fé af öðrum með því að hóta manni að beita hann eða nána vandamenn hans líkamlegu ofbeldi, svipta hann eða þá frelsi, eða að hafa upp rangan sakburð um refsiverða eða vansæmandi háttsemi hans eða náinna vandamanna hans, eða annan slíkan sakburð, þótt sannur sé, ef nauðungin á ekki nægilegan rétt á sér vegna málefnis þess, er hótunin beinist að, eða loks með því að hóta honum að valda verulegum skemmdum eða eyðileggingu á eignum hans, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.“

Þingfesting í málinu verður í héraðsdómi í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert