Borgin fjárfestir fyrir 14 milljarða

Nýr skóli rís nú í Úlfarsárdal en fyrsti áfangi hans …
Nýr skóli rís nú í Úlfarsárdal en fyrsti áfangi hans var tekinn í notkun í haust. Haldið verður áfram með skólann og menningarhús í Úlfarsárdal á næsta ári og kosta framkvæmdirnar um tvo milljarða samkvæmt fjárhagsáætlun. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg mun fjárfesta fyrir rúma 14 milljarða króna á næsta ári. Þetta kemur fram í frumvarpi að fjárhagsáætlun fyrir 2017 þar sem farið er yfir fjárfestingar eignasjóðs sem heldur utan um allar eignir Reykjavíkurborgar.

Borgin mun því leggja 5,5 milljarða króna í ýmsar gatnaframkvæmdir á árinu. Þar af verða lagðir tæpir 1,8 milljarðar króna í götur í nýbyggingarhverfum.

„Í mörg horn er að líta enda er borgin í örri þróun og bæði verið að þétta byggð og bæta við nýbyggingahverfum eins og í Úlfarsárdal, Hlíðarenda, Kirkjusandi og Vesturbugt,“ segir í tilkynningu frá borginni.

Tæpir tveir milljarðar í mannvirki í Úlfarsárdal

Borgin fjárfestir fyrir 6,2 milljarða króna í nýbyggingum á næsta ári. Þar er langstærsta verkefnið nýr skóli og menningarhús í Úlfarsárdal en í það verkefni eru áætlaðar 1.750 milljónir króna. 

Þá verða  lagðar 900 milljónir króna í viðbyggingu og breytingar á Klettaskóla og 300 milljónir króna í viðbyggingu og breytingar á Vesturbæjarskóla. Ráðist verður endurbygging skólalóða fyrir 300 milljónir króna, samkvæmt tilkynningunni.

Útilaug við Sundhöllina kláruð

Í íþrótta- og tómstundamálum ber hæst að útilaugin við Sundhöll Reykjavíkur verður kláruð en til þess verkefnis fara 770 milljónir króna.  Einnig verður  ráðist í gerð frjálsíþróttavallar í Suður-Mjódd sem ÍR mun reka en í það fara 300 milljónir króna. Gervigras verður endurnýjað fyrir 185 milljónir, m.a. í boltagerðum víða um borg. 

Í menningarmálum ber hæst að haldið verður áfram með byggingu viðbyggingar við borgarbókasafnið í Grófarhúsi fyrir 70 milljónir króna. Sjóminjasafnið fær 50 milljónir til endurbóta  og búnaður í Borgarleikhúsi verður endurnýjaður fyrir 46 milljónir.

Í velferðarmálum verður ráðist í framkvæmdir við hjúkrunarheimili við Sléttuveg en framlag borgarinnar þar verður 181 milljónir króna á næsta ári.

Þá munu breytingar á Perlunni kosta um 100 milljónir króna en þar stendur til að koma upp viðamikilli og spennandi sýningu um náttúru Íslands, að því er kemur fram í tilkynningunni.

Gatnakerfi nýbyggingarsvæða og miðborgar

Miklar fjárfestingar verða í gatnakerfi á nýbyggingarsvæðum. Þannig eru 500 milljónir króna áætlaðar í gatnakerfi á Hlíðarenda og 250 milljónir króna í Vogabyggð-Elliðaárvogi.

400 milljónir eiga að fara í breytingar á Geirsgötu og Lækjargötu auk þess sem 100 milljónir fara í endurgerð Hafnarstrætis en þar er verið að byggja hótel. Hluti af því verður nýtt straujárnslagað hús.

Þá eru áætlaðar 92 milljónir króna í Vigdísartorg við nýbyggingu stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur við Suðurgötu.

Fjármagn til malbikunar tvöfaldað

Áætlað er að fara í viðamikið átak í malbikun gatnakerfisins í Reykjavík á næstu árum en Reykjavíkurborg er með 420 km af götum sem þarf að halda við. Árið 2017 verður varið 1.460 milljónir króna  til viðgerða og endurnýjunar á malbiki í Reykjavík sem eru meiri fjármunir en nokkru sinni áður, samkvæmt tilkynningunni.

Um er að ræða ríflega tvöföldun frá árinu 2016 en þá var aukið verulega við fé til malbikunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert