Borgin fjárfestir fyrir 14 milljarða

Nýr skóli rís nú í Úlfarsárdal en fyrsti áfangi hans …
Nýr skóli rís nú í Úlfarsárdal en fyrsti áfangi hans var tekinn í notkun í haust. Haldið verður áfram með skólann og menningarhús í Úlfarsárdal á næsta ári og kosta framkvæmdirnar um tvo milljarða samkvæmt fjárhagsáætlun. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg mun fjárfesta fyrir rúma 14 milljarða króna á næsta ári. Þetta kemur fram í frumvarpi að fjárhagsáætlun fyrir 2017 þar sem farið er yfir fjárfestingar eignasjóðs sem heldur utan um allar eignir Reykjavíkurborgar.

Borgin mun því leggja 5,5 milljarða króna í ýmsar gatnaframkvæmdir á árinu. Þar af verða lagðir tæpir 1,8 milljarðar króna í götur í nýbyggingarhverfum.

„Í mörg horn er að líta enda er borgin í örri þróun og bæði verið að þétta byggð og bæta við nýbyggingahverfum eins og í Úlfarsárdal, Hlíðarenda, Kirkjusandi og Vesturbugt,“ segir í tilkynningu frá borginni.

Tæpir tveir milljarðar í mannvirki í Úlfarsárdal

Borgin fjárfestir fyrir 6,2 milljarða króna í nýbyggingum á næsta ári. Þar er langstærsta verkefnið nýr skóli og menningarhús í Úlfarsárdal en í það verkefni eru áætlaðar 1.750 milljónir króna. 

Þá verða  lagðar 900 milljónir króna í viðbyggingu og breytingar á Klettaskóla og 300 milljónir króna í viðbyggingu og breytingar á Vesturbæjarskóla. Ráðist verður endurbygging skólalóða fyrir 300 milljónir króna, samkvæmt tilkynningunni.

Útilaug við Sundhöllina kláruð

Í íþrótta- og tómstundamálum ber hæst að útilaugin við Sundhöll Reykjavíkur verður kláruð en til þess verkefnis fara 770 milljónir króna.  Einnig verður  ráðist í gerð frjálsíþróttavallar í Suður-Mjódd sem ÍR mun reka en í það fara 300 milljónir króna. Gervigras verður endurnýjað fyrir 185 milljónir, m.a. í boltagerðum víða um borg. 

Í menningarmálum ber hæst að haldið verður áfram með byggingu viðbyggingar við borgarbókasafnið í Grófarhúsi fyrir 70 milljónir króna. Sjóminjasafnið fær 50 milljónir til endurbóta  og búnaður í Borgarleikhúsi verður endurnýjaður fyrir 46 milljónir.

Í velferðarmálum verður ráðist í framkvæmdir við hjúkrunarheimili við Sléttuveg en framlag borgarinnar þar verður 181 milljónir króna á næsta ári.

Þá munu breytingar á Perlunni kosta um 100 milljónir króna en þar stendur til að koma upp viðamikilli og spennandi sýningu um náttúru Íslands, að því er kemur fram í tilkynningunni.

Gatnakerfi nýbyggingarsvæða og miðborgar

Miklar fjárfestingar verða í gatnakerfi á nýbyggingarsvæðum. Þannig eru 500 milljónir króna áætlaðar í gatnakerfi á Hlíðarenda og 250 milljónir króna í Vogabyggð-Elliðaárvogi.

400 milljónir eiga að fara í breytingar á Geirsgötu og Lækjargötu auk þess sem 100 milljónir fara í endurgerð Hafnarstrætis en þar er verið að byggja hótel. Hluti af því verður nýtt straujárnslagað hús.

Þá eru áætlaðar 92 milljónir króna í Vigdísartorg við nýbyggingu stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur við Suðurgötu.

Fjármagn til malbikunar tvöfaldað

Áætlað er að fara í viðamikið átak í malbikun gatnakerfisins í Reykjavík á næstu árum en Reykjavíkurborg er með 420 km af götum sem þarf að halda við. Árið 2017 verður varið 1.460 milljónir króna  til viðgerða og endurnýjunar á malbiki í Reykjavík sem eru meiri fjármunir en nokkru sinni áður, samkvæmt tilkynningunni.

Um er að ræða ríflega tvöföldun frá árinu 2016 en þá var aukið verulega við fé til malbikunar.

mbl.is