Par handtekið á flótta eftir rán

Frá vettvangi í Ólafsvík.
Frá vettvangi í Ólafsvík. mbl.is/Alfons Finnsson

Karlmaður framdi vopnað rán í Apóteki Ólafsvíkur skömmu fyrir klukkan sex síðdegis í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vesturlandi var maðurinn, ásamt konu, handtekinn á Snæfellsnesvegi skammt frá Haffjarðará, þegar lögregla stöðvaði bíl hans.

Ólafur Guðmundsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Vesturlandi, segir manninn hafa ógnað starfsfólki apóteksins með hníf, og náð að taka á brott með sér lyf.

Fyrstu fregnir herma þá að konan sé íslensk en maðurinn af erlendu bergi brotinn. Parið verður nú flutt á lögreglustöðina á Akranesi til frekari yfirheyrslu. Þá hefur tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu verið send á vettvang í Ólafsvík.

Tilkynnt var um ránið klukkan 17.43 en parið náðist klukkan 18.50, um klukkutíma eftir að ránið hafði átt sér stað. Lögreglumenn á Akranesi höfðu þá verið kallaðir út til að keyra á móti parinu og stöðva það, sem þeir gerðu.

mbl.is