MH-ingar sigruðu í Boxinu

Frá Boxinu, framkvæmdakeppni framhaldsskólanema.
Frá Boxinu, framkvæmdakeppni framhaldsskólanema. mbl.is/Árni Sæberg

Lið Menntaskólans við Hamrahlíð sigraði í framkvæmdakeppni framhaldsskólanna, Boxinu, í ár eftir harða keppni. Lið frá átta skólum kepptu til úrslita í keppninni í Háskólanum í Reykjavík í gær og fólst keppnin í því að leysa fjölbreyttar þrautir sem reyna á verklega og bóklega þekkingu, hugvit og verklag þátttakenda.

Stúlkurnar í sveit Menntaskólans í Kópavogi voru uppteknar við iðju …
Stúlkurnar í sveit Menntaskólans í Kópavogi voru uppteknar við iðju sína þegar ljósmyndara mbl.is bar að garði. mbl.is/Árni Sæberg

Í sigurliði MH-inga voru þau Magdalena Guðrún Bryndísardóttir, Jessý Jónsdóttir, Ásmundur Jóhannsson, Unnar Ingi Sæmundarson og Ívar Dór Orrason en í öðru sæti var lið Kvennaskólans í Reykjavík og MR-ingar höfnuðu í þriðja sæti.

Í tilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík segir að liðin hafi farið í gegnum þrautabraut með átta þrautum sem sérhannaðar hafi verið af sérfræðingum fyrirtækja úr ólíkum greinum iðnaðarins með aðstoð fræðimanna HR.

21 lið frá 13 skólum tók þátt í forkeppninni í október. Auk sigurskólanna þriggja tóku þátt í úrslitunum í gær lið frá Tækniskólanum, Menntaskólanum að Laugarvatni, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Menntaskólanum í Kópavogi og Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Þetta er í sjötta sinn sem Boxið er haldið. Að keppninni standa Samtök iðnaðarins, Háskólinn í Reykjavík og Samband íslenskra framhaldsskólanema. Markmið með Boxinu er að kynna og vekja áhuga nemenda í framhaldsskólum á verk- og tækninámi og fjölbreyttum störfum í iðnaði. Það var lið Menntaskólans á Akureyri sem sigraði í Boxinu í fyrra.

mbl.is
Loka