Frestuðu brottvísun vegna barnanna

Lögreglumenn við heimili fjölskyldunnar á Reykjanesi í nótt.
Lögreglumenn við heimili fjölskyldunnar á Reykjanesi í nótt. Skjáskot/Facebook

Ráðleggingar starfsmanns barnaverndar Reykjanesbæjar urðu til þess að hætt var við brottvísun fjögurra manna fjölskyldu frá landinu í nótt. Var sú ákvörðun tekin með hag barnanna að leiðarljósi.

Þetta segir Árni Freyr Árnason, lögmaður fjölskyldunnar. Hann segir að ekki hafi þó verið hætt við brottvísunina. Aðeins sé um frestun að ræða. Alls óvíst sé hvenær hún verði reynd aftur.

Faðir barnanna, Abdelwahab Saad, er frá Tógó þaðan sem hann flúði pólitískar ofsóknir. Móðirin, Fadila, er frá Gana. Þau komu hingað til lands fyrir tveimur árum. Þá var Fadila ólétt af syni sínum, Hanif. Síðan hefur eitt barn bæst í hópinn, stúlkan Jónína. Bæði börnin eru því fædd hér á landi.

Átti að vísa þeim til Ítalíu

Lögreglumenn komu að heimili fólksins í Reykjanesbæ í gærkvöldi til að framkvæma brottvísunina. Hafði kærunefnd útlendingamála komist að þeirri niðurstöðu að senda bæri fólkið til Ítalíu. Árni Freyr fékk að vita með tíu daga fyrirvara að brottvísunin stæði til. Hann segist ekki vita hvort að sambærilegur frestur verði gefinn næst þegar tilraun til þess verður reynd. 

„Réttarstaða þeirra hefur ekkert breyst,“ segir Árni Freyr. „Það var hins vegar hætt við að flytja þau af landi brott í nótt.“

Er lögreglumenn mættu að heimili fjölskyldunnar í nótt biðu þar fjölmiðlamenn og velunnarar fjölskyldunnar. Myndbandi af aðgerðum lögreglunnar hefur nú verið dreift á samfélagsmiðlum. Árni segir að vegna aðstæðna fjölskyldunnar hafi lögreglan ekki haldið framkvæmdinni til streitu. „Þeir hafa bara ekki lagt í þetta,“ segir hann um ákvörðun lögreglunnar.  

Árni Freyr var ekki á staðnum er lögreglan kom til fjölskyldunnar í nótt. Hann segist þó hafa fengið upplýsingar um að fulltrúi barnaverndarnefndar í Reykjanesbæ hafi verið kallaður til og ráðlagt lögreglunni að fresta aðgerðinni, með hag barnanna að leiðarljósi. 

Mikil óvissa

Árni segir að fjölskyldufaðirinn hafi verið með hæli og dvalarleyfi á Ítalíu. Útlendingastofnun hér á landi hafi metið það þannig að fjölskyldan gæti öll farið til Ítalíu og sótt aftur um hæli þar. Árni segist hafa lagt áherslu á það, er hann bað um að ákvörðun um brottvísun héðan yrði frestað, að staða þeirra á Ítalíu, sem er nú mjög óljós, yrði skoðuð fyrst. 

Hann segir að úrskurðir kærunefndar útlendingamála, um að foreldrarnir geti ekki talist hælisleitendur hér á landi, séu endanlegir. Hins vegar hafi hann beðið nefndina að endurskoða niðurstöðu sína þar sem börnin tvö, sem bæði eru fædd á Íslandi, séu svo lítil. Hann segir að ákveðinn vafi ríki um túlkun laganna þegar börn eiga í hlut. „Það sem ég er að biðja um er að þeir leyfi börnunum að njóta þess vafa.“

En hvað gerist nú?

Árni Freyr segir að miðað við hvernig kerfið er nú, og svo lengi sem „enginn skipti um skoðun“, verði fjölskyldunni vísað úr landi innan skamms. Nema að einhver ráðherra til dæmis hlutist til um málið. „Það hefur alveg gerst og er þeirra eina von.“ 

Myndbandið hér að neðan, frá lögregluaðgerðum í nótt, er tekið af Facebook-síðunni Ekki fleiri brottvísanir. 

mbl.is