Dómi um Jökulsárlón snúið við

Deilt var um útgerð báta frá landi jarðarinnar Fells.
Deilt var um útgerð báta frá landi jarðarinnar Fells. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hæstiréttur hefur snúið við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli þar sem fyrirtækinu Ice Lagoon ehf. var bannað að gera út báta með ferðamenn á Jökulsárlóni frá landi jarðarinnar Fells.

Frétt mbl.is: Bannað að gera út á Jökulsárlóni

Í málinu höfðu Einar Björn Einarsson, eigandi fyrirtækisins Jökulsárlóns, og félag í hans eigu, Reynivellir ehf., krafist þess að Ice Lagoon yrði bannað að gera út bátana á grundvelli leigusamnings við Sameigendafélag Fells frá árinu 2012.

Sögðu samninginn í bága við réttindi sín

Segir í dómi Hæstaréttar að fyrir hafi legið að Einar Björn og Reynivellir hefðu rekið sambærilega þjónustu á sömu jörð á grundvelli leigusamnings við Sameigendafélagið frá árinu 2000, og að þeir ættu tæplega 24% eignarhlut í jörðinni, í óskiptri sameign með öðrum eigendum hennar.

Einar Björn og Reynivellur hefðu þá reist kröfu sína á því að samþykki allra eigenda jarðarinnar hefði þurft til gerðar samningsins við Ice Lagoon, ákvörðunin hefði ekki verið tekin á lögmætum fundi félagsins og loks að samningurinn færi í bága við réttindi þeirra samkvæmt leigusamningnum frá árinu 2000.

Einn þriggja dómara skilaði sératkvæði í málinu.
Einn þriggja dómara skilaði sératkvæði í málinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fól ekki í sér óvenjulega ráðstöfun

Í dómnum er vikið að þeirri meginreglu eignarréttar um sérstaka sameign, að samþykki allra sameigenda þarf til óvenjulegra ráðstafana og ráðstafana sem séu meiri háttar þótt venjulegar gætu talist.

Með hliðsjón af atvikum málsins, forsögu samningsgerðarinnar og eðlis og umfangs þess reksturs sem samningurinn frá árinu 2012 tók til, taldi Hæstiréttur hvorki að hann hefði falið í sér óvenjulega ráðstöfun né að hún hefði verið svo meiri háttar að þurft hefði samþykki allra eigenda jarðarinnar fyrir henni.

Einn dómari skilaði sératkvæði

Enn fremur hefði ákvörðunin verið tekin af tilskildum meirihluta á lögmætum fundi félagsins, auk þess sem Einar Björn og Reynivellir hefðu á öllum stigum málsins verið upplýstir um áformin.

Ice Lagoon ehf. og Sameigendafélag Fells, sem áfrýjað höfðu dómi Héraðsdóms, voru því sýknaðir af kröfu Einars Björns og Reynivalla, sem á sama tíma voru dæmdir til að greiða áfrýjendum 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Þrír dómarar dæmdu í málinu en sá þriðji, Viðar Már Matthíasson, skilaði sératkvæði og taldi að staðfesta ætti dóm Héraðsdóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert