6 ára fangelsi fyrir ítrekaðar nauðganir

mbl.is/G.Rúnar

Karlmaður hefur verið dæmdur í sex ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna ítrekaðra nauðgana, líkamsárása, blygðunarsemisbrota og ærumeiðinga gagnvart fyrrverandi eiginkonu sinni og barnsmóður. Þá braut maðurinn einnig ítrekað gegn nálgunarbanni þegar hann setti sig í samband við konuna eftir að lögreglustjóri hafði sett nálgunarbann á hann. Þá var maðurinn dæmdur til að greiða konunni 3 milljónir í miskabætur.

Maðurinn játaði hluta brotanna fyrir dómi og var það metið honum málsbóta. Dómurinn telur þó alvarleika brotanna vega til þyngingar dómsins. „Til þyngingar horfir að ákærði braut gróflega gegn brotaþola og misbauð henni líkamlega og andlega. Um ítrekuð ofbeldis- og kynferðisbrot er að ræða auk hótana og stórfelldra ærumeiðinga. Ná brotin yfir langt tímabil og eru framin bæði fyrir og eftir að brotaþoli og ákærði gengu í hjónaband svo og eftir að því lauk.“

Í dómnum er sérstaklega litið til þess að um einbeittan brotavilja hafi verið að ræða. „Veigraði ákærði sér til að mynda ekki við að veitast að brotaþola á sjúkrahúsi skömmu eftir barnsfæðingu. Gilti þar einu þó að nýfædd börn hans væru í sama herbergi. Þá er hluti brotanna til að mynda framinn eftir að ákærði var laus úr gæsluvarðhaldi sem hann sætti vegna málsins,“ segir í dómnum.

Í ákæru kemur fram að maðurinn hafi nauðgað konunni tvisvar, meðal annars með að binda hana og hengja upp á krók. Eftir að hann losaði konuna niður neyddi hann hana til endaþarms- og munnmaka.

Þá kemur fram að hann hafi margsinnis veist að konunni, slegið hana, rifið í hár hennar og gefið henni olnbogaskot. Maðurinn sendi systur konunnar einnig myndir af kynferðisathöfnum milli hans og konunnar og flokkast það sem blygðunarsemisbrot. Þá stofnaði hann Facebook-síðu undir nafni konunnar og birti þar myndir af kynfærum konunnar á forsíðu síðunnar.

Maðurinn braut einnig í 16 skipti gegn nálgunarbanni sem honum hafði verið gert að sæta með því að senda konunni skilaboð í tölvupósti eða á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert