Vilja að Alþingi afnemi undanþágu

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Félag atvinnurekenda skorar á nýtt Alþingi að nema hið fyrsta úr gildi undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum, en í nýjum úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála er það niðurstaða meirihluta nefndarinnar að samkeppnislög víki til hliðar vegna búvörulaga. Í búvörulögum er mjólkuriðnaðurinn undanþeginn samkeppnislögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

Bent er á að í úrskurðinum hafi verið staðfest að MS hafi leynt gögnum fyrir Samkeppniseftirlitinu, en þar er um að ræða samning milli MS og KS. Í tilkynningu frá MS fyrr í kvöld sagði félagið að það hefði ekki haft neinn hag af að leyna gögnunum, heldur þvert á móti.

Í tilkynningu Félags atvinnurekenda segir aftur á móti að það sé ótækt að fyrirtæki sem grunuð eru um samkeppnisbrot komist upp með að tefja mál með því að leyna gögnum og að þung viðurlög þurfi að vera við slíku.

Haft er eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, að breyta þurfi lögum. „Það er með öllu ótækt að önnur lög gildi um mjólkuriðnaðinn en annað atvinnulíf í landinu,“ segir hann og bætir við að meirihluti sé á nýju Alþingi fyrir því að breyta búvörulögunum. Þá segir hann málinu ekki lokið og Samkeppniseftirlitið geti borið niðurstöðuna undir dómstóla. Segir Ólafur að við þá ákvörðun spili stóran þátt hversu mikilvægur markaðurinn er og sú staðreynd að afstaða áfrýjunarnefndarinnar sé ekki afgerandi, en einn af þremur nefndarmönnum taldi MS hafa brotið lög og vildi að fyrri sekt Samkeppniseftirlitsins upp á 480 milljónir héldist.

Mjólkuriðnaðurinn er undanþeginn samkeppnislögum samkvæmt búvörulögum.
Mjólkuriðnaðurinn er undanþeginn samkeppnislögum samkvæmt búvörulögum. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert