Hugsi yfir úrskurðinum

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að verið sé að skoða hvort úrskurði meirihluta áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli Mjólkursamsölunnar verði áfrýjað. Nefndin felldi úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að sekta fyrirtækið um 480 milljónir króna.

Frétt mbl.is: Sektin lækkuð úr 480 í 40 milljónir

Frétt mbl.is: MS lýsir ánægju með niðurstöðuna

Að sögn Páls Gunnars verður ákvörðun tekin tiltölulega fljótt um það hvort málinu verður áfrýjað. „Við erum hugsi yfir úrskurðinum. Þetta er eitthvað sem þarf að skoða vel og þá staðreynd að áfrýjunarnefndin klofnaði í afstöðu sinni,“ segir Páll Gunnar.

Skrýtin ákvörðun

Hálfdán Óskarsson, framkvæmdastjóri mjólkurvinnslunnar Örnu í Bolungarvík, segir ákvörðun áfrýjunarnefndar samkeppnismála vera skrýtna. „Það er eðlilegast að fyrirtæki á samkeppnismarkaði sé undir samkeppnislögum,“ segir Hálfdán og vonast til þess að Samkeppniseftirlitið áfrýi málinu.

Hálfdán Óskarsson (til hægri) ásamst syni sínum Óskari.
Hálfdán Óskarsson (til hægri) ásamst syni sínum Óskari. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Mikil vonbrigði“

Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri mjólkurbúsins Kú, segir það mikil vonbrigði að meirihluti áfrýjunarnefndar samkeppnismála „skuli víkja til hliðar öllum verndaráhrifum samkeppnislaga“ með úrskurði sínum.  

Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu 7. júlí að MS hefði mis­notað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja keppi­naut­um grunda­vall­ar­hrá­efni til fram­leiðslu á mjólk­ur­vör­um á óeðli­lega háu verði. Á sama tíma fékk MS sjálft og tengd­ir aðilar þetta hrá­efni á mun lægra verði og að auki und­ir kostnaðar­verði. MS kærði niðurstöðuna og áfrýjunarnefndin tók málið fyrir.

Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri mjólkurbúsins Kú.
Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri mjólkurbúsins Kú. mbl.is/Eyþór Árnason

„Algjörlega berskjaldaðir“

„Það er algjörlega ljóst að keppinautar Mjólkursamsölunnar eru algjörlega berskjaldaðir ef þetta gengur svona fram og við höfum enga vernd af samkeppnislögum. Það er algjörlega óásættanlegt að okkur sem erum að keppa við Mjólkursamsöluna, sem er með 98% markaðshlutdeild, er gert að starfa undir samkeppnislögum en Mjólkursamsalan er undanþegin ákvæðum samkeppnislaga og getur farið sínu fram hvernig sem tautar og raular,“ segir Ólafur.

Áminningar hraktar út af borðinu

Hann segir málið vera mikinn áfellisdóm yfir vinnubrögðum Mjólkursamsölunnar. Hún hafi verið fundin sek um að villa um og leyna gögnum fyrir Samkeppniseftirlitinu og hafi tafið málið í á þriðja ár. Einnig hafi allar áminningar Mjólkursamsölunnar gagnvart forstjóra og öðrum starfsmönnum Samkeppniseftirlitsins verið hraktar út af borðinu. „Allar samsæriskenningar Mjólkursamsölunnar um að Samkeppniseftirlitið sé að leggja Mjólkursamsöluna í einelti er bara bull og vitleysa.“ 

Ólafur segir að keppinautar Mjólkursamsölunnar hafi enga vernd af samkeppnislögum.
Ólafur segir að keppinautar Mjólkursamsölunnar hafi enga vernd af samkeppnislögum. mbl.is/Kristinn

Annað fyrirtæki hefði fengið þungar refsingar

Ólafur bætir við að ef um annað fyrirtæki en Mjólkursamsöluna væri að ræða væri það að horfa fram á „þungar refsingar fyrir þau brot sem Mjólkursamsalan hefur framið gegn keppinautum sínum á markaði. En vegna túlkunar meirihluta áfrýjunarnefndar er Mjólkursamsölunni heimilt að brjóta með svo ósvífnum hætti á keppinautum sínum eins og raun ber vitni í þessu máli. Það er alvarleg staða og algjörlega ólíðandi að menn geta komist upp með það að brjóta svo alvarlega á keppninautum sínum eins og hefur verið gert.“

Reiknar með áfrýjun

Hann kveðst eiga fulla von á því að Samkeppniseftirlitið áfrýi niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála og að málið fari fyrir dómstóla. „Ég trúi því að dómstólar muni rétta kúrsinn í þessu máli og niðurstaðan verði önnur en þessi og að Mjólkursamsalan verði látin bera ábyrgð á sinni framgöngu.“ 

Stefán Már Stefánsson lagaprófessor.
Stefán Már Stefánsson lagaprófessor. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Vilja að hæfi Stefáns Más verði skoðað

Að sögn Ólafs hefur verið óskað eftir því að umboðsmaður Alþingis skoði sérstaklega hæfi Stefáns Más Stefánssonar, prófessors í lögum við Háskóla Íslands, sem er í áfrýjunarnefnd samkeppnismála. „Hann hefur unnið mikið fyrir landbúnaðinn, m.a. landbúnaðarráðuneytið og Bændasamtökin, og við viljum að það verði skoðað sérstaklega,“ segir hann.

mbl.is