Stærsta hópuppsögn kennara í 20 ár

Gaman í skólanum.
Gaman í skólanum. mbl.is/RAX

Tæplega 30 grunnskólakennarar á höfuðborgarsvæðinu hafa sagt upp störfum frá því kjaradeila kennara hófst, samkvæmt heimildum mbl.is. Í gær og dag hefur 21 kennari sagt upp störfum í Seljaskóla. Að sögn skólastjóra Seljaskóla er þetta stærsta hópuppsögn grunnskólakennara á tæplega 20 árum.     

„Þetta er erfið staða sem við þurfum að vinna okkur í gegnum. Við byrjum á því að heyra í yfirmönnum okkar á skóla- og frístundarsviði og fá aðstoð við að takast á við þetta,“ segir Magnús Þór Jóns­son skóla­stjóri Selja­skóla.

Hann ítrekar að samningar verði að nást við kennara sem fyrst. Það myndi skýra myndina og hafa töluverð áhrif á stöðuna.    

Uppsagnir í Seljaskóla eru þverskurður af skólasamfélaginu. Kennararnir eru þó flestir 55 ára eða yngri.  

Börnin vilja ekki missa kennara sína

Börnin verða vör við umræðuna, að sögn Magnúsar. 

„Við heyrum áhyggjuraddir foreldra og barna í skólanum yfir ástandinu. Í nútímasamfélagi eru börnin tengdar samfélaginu með meira upplýsingaflæði. Í því ljósi verðum við að fara vel yfir stöðuna og hvernig við bregðumst við. Nemendum þykir vænt um kennarana sína og óttast mjög að þeir fari. Við höfum skyldum að gegna gagnvart börnunum. Og það er fullorðna fólksins að fara að leysa þetta,” segir Magnús. 

mbl.is

Bloggað um fréttina