Heiðarlegast að slíta viðræðunum

Þorsteinn Víglundsson segir þær áherslur sem lagðar voru á skattahækkun …
Þorsteinn Víglundsson segir þær áherslur sem lagðar voru á skattahækkun ekki hafa hugnaðst Viðreisn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir áherslur á stórfelldar skattahækkanir sem fram hefðu komið í stjórnarmyndunarviðræðum síðustu daga ekki hafa hugnast Viðreisn og því hafi hún talið heiðarlegast að slíta viðræðunum áður en lengra væri haldið.

„Það var búið að varpa fram hugmyndum um hversu mikið þyrfti að auka útgjöldin að mati sér í lagi kannski Vinstri grænna,“ segir Þorsteinn og kveður 40-50 milljarða útgjaldaaukningu hafa ítrekað verið setta fram í viðræðunum. Mikill fjöldi hugmynda, sem byggði á ýmsum skattbreytingum, hafi verið nefndur þessu til tekjuöflunar, m.a. auðlegðarskattur, nýtt skattþrep á hæstu tekjur, hærra fjármagnstekjuskattþrep, hærri virðisaukaskattur á ferðaþjónustu, sem og aðrar skattahugmyndir á ferðaþjónustuna sjálfa.

Fjármögnunarleiðir flokkanna ólíkar

„Mat manna var á endanum að það væru hverfandi líkur á að við gætum náð saman um svo umfangsmikla útgjaldaaukningu og svo miklar skattahækkanir,“ segir hann. Vafalítið hefði verið hægt að ná einhverjum málamiðlunum varðandi afmarkaða þætti. „En það var ekkert launungarmál að þó að allir flokkarnir væru samstíga um að leggja aukna áherslu á velferðarútgjöldin voru fjármögnunarleiðirnar afar ólíkar.“

Þorsteinn segir Viðreisn hafa fyrir kosningar lagt á áherslu á rétta forgangsröðun í ríkisfjármálum, sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum, lækkun skulda og þar með vaxtakostnaðar ríkissjóðs og skapa með því móti ákveðið svigrúm.

Í stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna fimm hafi hins vegar verið ráðandi áhersla á stórfelldar skattahækkanir, „sem við á endanum gátum ekki fellt okkur við,“ segir hann og kveður fjármögnunarhugmyndir Viðreisnar ekki endilega þurfa að taka miklu lengri tíma en fjármögnun með stórfelldum skattahækkunum.

Áherslumunur í sjávarútvegsmálum

Þorsteinn segir töluverðan áherslumun hafa einnig verið í sjávarútvegsmálinu. „En að langstærstum hluta þá eru þetta gjörólíkar hugmyndir varðandi umfang ríkisútgjaldanna og hvernig ætti að fjármagna þær, þ.e. þessar miklu skattahækkanir sem varð á endanum til þess að þegar VG var að kalla eftir afstöðu flokkanna til framhaldsviðræðna þá var kannski bara heiðarlegast að flagga því strax að þarna sæjum við fram á veruleg vandkvæði og það væri mjög langt á milli flokkanna í þessum efnum sérstaklega.“

Margt annað hafi hins vegar gengið ágætlega og verði mönnum væntanlega gott veganesti inn í samvinnuna í þinginu á þessu kjörtímabili, hvaða flokkar sem það annars verði sem muni mynda ríkisstjórn.

Hann segir þó líka umhugsunarefni að ef ekki sé hægt að fjármagna þau loforð sem hafa verið gefin í velferðar- og heilbrigðismálum við núverandi stig hagsveiflunnar, hvort slík útgjaldaloforð séu þá yfirhöfuð sjálfbær. „Þetta kallar á endurskoðun á ríkisfjármálum og nýja forgangsröðun. Það er vinna sem við treystum okkur fyllilega í á kjörtímabilinu. Það þarf hins vegar þolinmæði og vönduð vinnubrögð til að ljúka þeirri vinnu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert