Kom ekki á óvart að upp úr slitnaði

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. Sigurður ...
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. Sigurður Ingi telur líklegt að formenn þeirra flokka sem eru á þingi ræði saman eftir að slitnaði upp úr stjórnarmyndunarviðræðum. mbl.is/Eggert

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir sér ekki hafa komið á óvart að slitnað hafi upp úr stjórnarmyndunarviðræðum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar þar sem flokkarnir hafi verið margir og ólíkir.

„Niðurstaðan er þó sú að á laugardag verður mánuður liðinn frá kosningum og enn hefur ekki verið komið á laggirnar formlegum stjórnarmyndunarviðræðum sem virðast geta leitt til starfshæfrar meirihlutstjórnar,“ sagði Sigurður Ingi. „Þar með eykst þrýstingurinn og ábyrgð okkar stjórnmálamanna að setjast niður og mynda slíkan meirihluta.“

Tilbúnir til viðræðna við alla flokka

Hann segir Framsóknarflokkinn ávallt hafa lýst því yfir að hann sé tilbúinn í slíkt samstarf, „enda ábyrgur stjórnmálaflokkur.“ Framsókn hafi ólíkt sumum öðrum flokkum ekki verið með neinar yfirlýsingar um með hverjum þeir geti unnið og flokkurinn sé tilbúinn til viðræðna við alla flokka.

Spurður hvort hann hafi einhverja ákveðna flokka í huga svaraði Sigurður Ingi: „Ég hef ekki talið upp ákveðna flokka, en hef sagt að mér fannst niðurstaða kosninganna kalla á breiðari skírskotun, breiðari framlínu stjórnmálaflokka frá hægri til vinstri yfir miðjuna, til þess að annars vegar endurspegla niðurstöðu kosninganna og hins vegar til að takast á við þau verkefni sem eru upp í samfélaginu.“

Ekki liggur enn fyrir hvort Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, skili inn stjórnarmyndunarumboðinu. Sigurður Ingi segir hana þó örugglega munu hafa samband við Guðna Th. Jóhannesson forseta.  „Í það minnsta til að ræða við hann um hvaða stöður eru uppi.“

Líklegt að formenn flokkanna ræði saman

Spurður hvort hann muni ræða við Katrínu, svarar Sigurður Ingi: „Mér finnst mjög líklegt að formenn flokkanna leiti eftir samtali hverjir við aðra í ljósi þess sem ég ræddi áðan um ábyrgðina og tímann sem þetta er búið að taka.“

„Það er ljóst að þegar við erum komin á þennan tíma að það er mánuður liðinn frá kosningum og rúmur mánuður til áramóta þá er mjög mikilvægt að finna leið til að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Að öðrum kosti þarf í það minnsta að taka á því sem gera þarf fyrir áráramót til að ganga frá fjárlögum og öðru slíku.“

mbl.is