Samkeppniseftirlitið stefnir MS fyrir dóm

Mjólkursamsalan.
Mjólkursamsalan. Eggert Jóhannesson

Samkeppniseftirlitið ætlar að stefna Mjólkursamsölunni fyrir héraðsdóm með það fyrir augum að fá ógildingu á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem komst að þeirri niðurstöðu fyrr í vikunni að MS hefði ekki brotið samkeppnislög. Í úrskurðinum var MS aftur skyldað til að greiða 40 milljónir í sekt fyrir að hafa ekki sinnt upplýsingaskyldu samkeppnislaga og afhent Samkeppniseftirlitinu öll gögn um málið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Í júlí á þessu ári komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að MS hefði með alvarlegum hætti brotið samkeppnislög með því að misnota markaðsráðandi stöðu sína. Nánar tiltekið hefði MS misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja keppinautum sínum grundvallarhráefni til framleiðslu á mjólkurvörum, þ.e. hrámjólk, á óeðlilega háu verði á sama tíma og MS sjálft og tengdir aðilar (Kaupfélag Skagfirðinga og dótturfélag þess) fengu sama hráefni á mun lægra verði, og að auki undir kostnaðarverði. Ákvað eftirlitið að sekta MS um 480 milljónir vegna málsins.

MS skaut ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem kvað upp sinn úrskurð 21. nóvember.

Meirihluti nefndarinnar komst m.a. að þeirri niðurstöðu að undanþáguákvæði búvörulaga hefðu vikið banni samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu til hliðar. Af þessu leiddi að sekt MS var felld úr gildi, en nefndin staðfesti að MS hefði brotið alvarlega af sér varðandi upplýsingaskyldu og lagði 40 milljóna sekt á félagið.

Samkeppniseftirlitið hefur heimild til að bera úrskurði áfrýjunarnefndar undir dómstóla og segist Samkeppniseftirltið að málshöfðunin núna miði að því að fá úr því skorið hvort bann samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu taki að fullu til MS. Jafnframt verði fengin fullnaðarúrlausn um hvort að fyrirtækið skuli sæta fullri ábyrgð vegna þeirrar háttsemi sem fjallað er um í málinu og Samkeppniseftirlitið hefur metið sem alvarleg brot gegn minni keppinautum. Mun Samkeppniseftirlitið krefjast þess að MS greiði þá stjórnvaldssekt sem eftirlitið taldi hæfilega í ákvörðun sinni frá júlí 2016.

mbl.is