„Hefðum átt að geta náð saman“

Frá stjórnarmyndunarviðræðum Vinstri grænna, Pírata, Samfylkingarinnar, Bjartar framtíðar og Viðreisnar.
Frá stjórnarmyndunarviðræðum Vinstri grænna, Pírata, Samfylkingarinnar, Bjartar framtíðar og Viðreisnar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Staða ríkissjóðs er ekki nógu góð til að auka stórkostlega við útgjöld, tekjur verður að auka samhliða auknum útgjöldum. „Stöðugleikaframlög á að nota til að greiða skuldir.“ Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir í samtali við Heimi Má Pétursson í þættinum Víglínan á Stöð 2 og Vísi fyrr í dag.

Hún sagði það hafa legið fyrir að þrír af þeim fimm flokkum sem komu að stjórnarmyndunarviðræðum síðustu daga hefðu fyrir kosningar lagt til að um 11% af landsframleiðslu færu til heilbrigðismála. „Ég hefði talið að við hefðum átt að geta náð saman um þetta.“ 

Katrín sagði þó að stefnumál hefðu ekki verið það eina sem hefði skipt máli í viðræðunum, því flokkarnir hefðu ólíkar vinnuáherslur og því hefði „menningarmunur“ þeirra einnig haft áhrif.

Þá sagði hún að erfitt yrði fyrir nýja ríkisstjórn að breyta tekjustofnum ríkissjóðs áður en næstu fjárlög lægju fyrir og því væri mikilvægt að horfa frekar til lengri tíma. 

Katrín sagðist hafa stillt upp öllum samstarfskostum síðustu daga í samræðum við fulltrúa annarra flokka en hún vildi ekki tjá sig um hvað fór á milli í samræðum einstaka fulltrúa.

mbl.is

Bloggað um fréttina