Telja möguleg áhrif ógildingar lítil eða engin

Möstur Kröflulínu.
Möstur Kröflulínu. Ljósmynd/Sigríður Ragna Helgadóttir

Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá því á fimmtudaginn um að ekki beri að ógilda framkvæmdaleyfi Landsnets vegna Kröflulínu 4 í landi Skútustaðahrepps er fyrirvari um að það sé á ábyrgð Landsnets að halda framkvæmdum áfram meðan úrskurður um framkvæmdaleyfið sjálft er ekki fallinn. Landsnet telur möguleg áhrif af slíkri ógildingu þó vera engin eða mjög óverulega vegna síðari kærumála sem gætu komið upp. Þetta kemur fram í skriflegu svari frá fyrirtækinu við fyrirspurn mbl.is.

Landsnet segist ætla að halda áfram framkvæmdum þótt endanlegur úrskurður sé ekki enn kominn. „Í ljósi þeirra tafa sem þegar hafa orðið á áformunum er Landsneti nauðsynlegt að halda áfram framkvæmdum, svo sem aðstæður leyfa. Með því er dregið eins og kostur er úr áhrifum þeirra tafa sem þegar hafa orðið,“ segir í svarinu sem Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, sendi.

Þá segir í svarinu að möguleg áhrif úrskurðar um ógildingu ráðist af forsendum úrskurðar og tímasetningu. „Almennt geta áhrifin verið allt frá því að vera engin eða smávægileg tímatöf og upp í stöðvun framkvæmda. Þar sem úrskurðarnefndin hefur í fyrra kærumáli tekið afstöðu til allra stærstu ágreiningsatriða tengdum framkvæmdaundirbúningi, s.s. gildi mats á umhverfisáhrifum og skipulagsmála, er líklegast að áhrif verði engin eða mjög óveruleg vegna síðara kærumáls.“

Framkvæmdirnar komust í uppnám í ágúst þegar úrskurðanefndin stöðvaði þær. Meðal annars var til skoðunar að breyta lögum afturvirkt til að ný náttúruverndarlög hefðu ekki áhrif á framkvæmdina. Var meðal annars vísað til þess að tafir á málinu gætu orðið Landsneti dýrkeyptar þar sem fyrirtækið gæti þá ekki staðið við samninga um raforkuafhendingu. Ekkert varð þó úr lagabreytingunni og var aftur gefið út framkvæmdaleyfi sem úrskurðarnefndin hefur nú til skoðunar.

Mbl.is spurði Landsnet hvort að ekki væri gert ráð fyrir að kærur gætu komið fram á framkvæmdaleyfi og að tíma gæti tekið að fella úrskurði um það við gerð samninga og þegar gengist væri undir skuldbindingar. Landsnet segir í svari sínu að gerðir séu fyrirvarar um leyfisveitingar. Þó verði að hafa í huga að allar forsendur fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi þurfi að vera til staðar og að leyfið falli úr gildi hefjist framkvæmdir ekki á tólf mánuðum. Kæru- og dómstólamál geti teygt sig langt út fyrir þau tímamörk og ef bíða eigi sé framkvæmdaleyfið fallið úr gildi áður en niðurstaða liggur fyrir.

Þá segir Landsnet að kærur og dómsmál fresti ekki réttaráhrifum ákvarðana stjórnvalda, eins og framkvæmdaleyfi. „Framkvæmdir hefjast ekki fyrr en öllum lögboðnum ferlum er lokið. Kæru- og dómstólaleiðir teljast hins vegar ekki til lögboðinna ferla enda ekki nauðsynlegur hluti í undirbúningi framkvæmda. Um er að ræða réttarúrræði sem einkum þeim sem hafa lögvarða hagsmuni af endurskoðun ákvörðunar geta nýtt sér. Íslenskur réttur byggir á þeirri meginhugsun að kærur eða höfðun dómsmála fresti ekki réttaráhrifum ákvarðana stjórnvalda,“ segir í svarinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert