„Svikalogn“ í grónum hverfum

Ágústa Tómasson og Guðlaug Björgvinsdóttir grunnskólakennarar.
Ágústa Tómasson og Guðlaug Björgvinsdóttir grunnskólakennarar. mbl.is/Þórunn

„Nei,“ sögðu grunnskólakennararnir Guðlaug Björgvinsdóttir og Ágúst Tómasson, spurð hvort þau væru bjartsýn á að kjarasamningar næðust fljótlega. Þau telja að boltinn liggi hjá sveitarfélögunum og eru sammála um að sveitarfélögin hafi ekki axlað þá ábyrgð sem þau þurfa að gera.

Guðlaug og Ágúst voru viðstödd samstöðufund Félags tónlistarkennara með grunnskólakennurum sem var haldinn í Iðnó í kvöld. 

„Undiraldan er miklu þyngri en fólk gerir sér grein fyrir,“ segir Ágúst og vísar til grasrótarstarfs kennara en hann hefur tekið þátt í því. Ágúst bætir við að hann sé hluti af „svikalogninu sem ríkir í grónari hverfum Reykjavíkur.“ Vísar hann til þess að fjölmennur hópur af kennurum hættir störfum á næstunni og sá hópur hefur ekki efni á að eiga þá hættu að missa af lífeyrisgreiðslum. 

Diddú og Kristján Jóhannsson mættu á samstöðufundinn.
Diddú og Kristján Jóhannsson mættu á samstöðufundinn. mbl.is/Ófeigur

Hvorugt þeirra er búið að segja upp en þau horfa bæði mikið í kringum sig að öðrum störfum.  

Guðlaug er í öðrum störfum með 100% kennslu til þess eins að ná endum saman. „Þar fæ ég að minnsta kost greitt fyrir alla þá klukkutíma sem ég vinn,“ segir hún. 

Þau eru sammála um að tómlæti ríki af hálfu sveitarfélaganna að rétta hlut kennara. „Ég ímynda mér að einhvers konar SALEK-samkomulag verði sett fram. Það er ekki nóg,“ segir Ágúst.

Hann hóf kennslu í upphafi áttunda áratugarins og byrjaði aftur að kenna eftir hrun. Hann segir starfið hafa breyst mikið á þessum tíma. „Þá kenndi ég mína tíma og fór svo heim. Það var kennarafundur einu sinni í mánuði,“ segir hann. 

Frá samstöðufundinum.
Frá samstöðufundinum. mbl.is/Ófeigur

Guðlaug hefur kennt frá árinu 1997. Hún segir álagið í kennslu hafi aukist mikið með árunum, sérstaklega eftir kennarasamningana árið 2004.

Þau eru bæði staðráðin í að leggja niður störf á miðvikudaginn ef engir samningar hafa náðst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert