Fá 204 þúsund króna eingreiðslu

Inga Rún Ólafsdóttir og Ólafur Loftsson takast í hendur með …
Inga Rún Ólafsdóttir og Ólafur Loftsson takast í hendur með Bryndísi Hlöðversdóttur á milli sín. mbl.is/Stella Andrea

Félag grunnskólakennara og samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga undirrituðu nýjan samning í gærkvöldi.

Samið er aðeins til eins árs og samkvæmt heimildum blaðsins kveður samningurinn á um 7,3% hækkun 1. desember nk. og 3,5% 1. mars 2017. Einnig kemur eingreiðsla 1. janúar nk. upp á 204 þúsund krónur fyrir 100% starf. Þá verður öll gæsla greidd í yfirvinnu frá morgundeginum, 1. desember.

„Þetta hefur verið löng og ströng samningalota og nú er niðurstaðan komin og vonum við að sátt náist við kennarastéttina með þessum samningi,“ segir Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, í samtali við Morgunblaðið.

Spurð hvort aðilar hafi þurft að gefa mikið eftir, segir Inga Rún að þessi síðasta lota hafi reynt mikið á báða aðila en hún sé bjartsýn á að þetta gangi í þetta skipti. Vildi hún ekkert gefa upp um innihald samningsins. Nú fari hann í kynningu til félagsmanna og sveitarstjórnarmanna og svo á niðurstaða úr atkvæðagreiðslu að liggja fyrir í dagslok hinn 12. desember næstkomandi. Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, tekur í sama streng og vill ekki gefa neitt upp um hvað felst í samningnum. „Við kynnum samninginn trúnaðarmönnum okkar í fyrramálið [í dag] og þurfum svigrúm til að koma þessu til fólksins okkar,“ sagði Ólafur við mbl.is í gærkvöldi um nýsamþykktan kjarasamning.

Samninganefndirnar höfðu fundað frá því snemma í gærmorgun en stíf fundahöld höfðu einnig verið undanfarna mánuði eftir að kennarar höfðu fellt samninga í tvígang.

Kjarasamningurinn sem nú var undirritaður gildir til nóvember 2017. Stefnt er að því að hefja atkvæðagreiðslu um samninginn mánudaginn 5. desember. Síðasti samningur sem felldur var gilti til ársins 2019.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert