Vilja reglur sem takmarki fjölda gististaða

Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar skorar á borgaryfirvöld að setja nú þegar reglur sem takmarka fjölda gististaða og gistiheimila í hverfinu.

Þetta kemur fram í ályktun frá samtökunum.

Í greinargerð er bent á að á síðustu árum hefur útleiga á íbúðum og herbergjum til ferðamanna í miðborginni aukist mikið. Lögum um skammtímaleigu, sem taka gildi um áramót, er ætlað að koma böndum á hinar svokölluðu „airbnb“-leiguíbúðir (Flokkur I í lögum um gistingu). „Fullvíst er að í framhaldinu verður aukinn þrýstingur á að fá heimildir til að reka gistingu í flokki II og flokki III,“ segir í greinargerðinni.

Á málþinginu Sambýlið við ferðaþjónustuna sem Íbúasamtök Miðborgar gengust fyrir nýlega komu fram miklar áhyggjur íbúa af því að stöðugt meira húsnæði í miðborginni er nýtt í ferðamannagistingu. „Þessi nýja ásókn í húsnæði hefur orðið til þess að fasteigna- og leiguverð hefur hækkað svo mikið að ungt fólk hefur ekki lengur efni á að búa í miðborginni og afleiðing þess er að börnum fækkar í eina grunnskóla hverfisins og deildum er lokað í leikskólum. Þrátt fyrir uppbyggingu nýs íbúðahúsnæðis í miðborginni hefur íbúatala miðborgarinnar ekki hækkað í samræmi við það og ástandið í húsnæðismálum mun óhjákvæmilega rýra gildi hverfisins sem íbúahverfis. Hætta er á því að sama þróun verði víða í austurhluta miðborgarinnar og í Kvosinni þar sem flestir íbúar eru flúnir og það ástand er heldur ekki þénanlegt fyrir ferðaþjónustuna því líklegt má telja að ferðamenn hafi lítinn áhuga á að búa í slíku hverfi,“ segir í greinargerðinni.

Stjórn íbúasamtakanna segir að veruleg hætta sé á því að samfélagslegum hagsmunum og hagsmunum ferðaþjónustunnar til lengri tíma sé fórnað ef engin bönd verða sett á núverandi þróun. „Við þessu verður að bregðast strax! Íbúasamtök Miðborgar skora því á borgaryfirvöld að setja nú þegar reglur um fjölda íbúða og herbergja í skammtímaútleigu. Okkar hugmynd er að miða við að hámarkið verði 15% íbúðarhúnæðis því ef fram heldur sem horfir er hætta á að fjölskyldugerðin foreldrar með börn á leik- og grunnskólaaldri verði nánast í útrýmingarhættu í miðborginni og aðrir sem hér búa eins konar sýniseintök um íbúa,“ segir í greinargerð Íbúasamtaka Miðborgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert