Fengu ekki að upplýsa neytendur

Brúnegg.
Brúnegg. mbl.is/Hjörtur

Tilteknir starfsmenn Matvælastofnunar vildu í lok árs 2015 upplýsa neytendur um ástandið vegna stöðu Brúneggja og um stöðvun dreifingar á eggjum.

Meðal annars skrifuðu dýralæknir alifuglasjúkdóma og upplýsingafulltrúi drög að fréttum þess efnis. Ákveðið var að birta þær ekki og lýstu framangreindir starfsmenn óánægju sinni með þá ákvörðun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Haldinn var sérstakur fundur með öllum þeim starfsmönnum sem komu að málinu þar sem hluti þeirra upplýsti um óánægju sína og þá skoðun að það væru mistök að upplýsa neytendur ekki um alvarleg dýravelferðarmál hjá Brúneggjum.

„Í ljósi gagnrýni síðustu daga á Matvælastofnun þess efnis að neytendur hafi ekki verið upplýstir um aðbúnað fugla hjá Brúneggjum vill stofnunin árétta að ábyrgð ákvarðana sem teknar voru við meðferð málsins lágu alfarið hjá yfirstjórn stofnunarinnar,“ segir í tilkynningunni. 

„Niðurstaðan hjá stofnuninni var að fara í vörslusviptingu og aðrar aðgerðir án þess að senda út frétt um málið. Af þessu hefur stofnunin dregið lærdóm og bætti upplýsingagjöf snemma á árinu. Frekari skref til að auka upplýsingagjöf til neytenda eru í farvatninu.“

Vissu ekki af blekkingum í áratug

Í tilkynningunni segir að þrátt fyrir að Matvælastofnun hafi ekki birt upplýsingar um aðgerðir sínar í lok árs 2015 sé ekki hægt að fallast á að Matvælastofnun hafi í áratug vitað af blekkingum gagnvart neytendum vegna markaðssetningar „vistvænna“ eggja.

„Reglur um vistvænar landbúnaðarafurðir voru ekki undir eftirliti Matvælastofnunar, en voru engu að síður teknar til skoðunar af dýralækni alifuglasjúkdóma í lok árs 2013. Tilefnið var að viðkomandi furðaði sig á þessari markaðssetningu miðað við þau frávik sem Matvælastofnun skráði í sínu eftirliti. Í ljós kom að starfsemin uppfyllti ekki  kröfur um vistvæna vottun. Í samráði við héraðsdýralækni var þá sent erindi til þeirra sem voru ábyrgir fyrir eftirliti með þessari löggjöf og óskað eftir viðbrögðum til að fyrirbyggja að neytendur væru blekktir. Þetta var því tveimur árum áður en Matvælastofnun tilkynnti um stöðvun starfsemi og vörslusviptingu hjá Brúneggjum í nóvember 2015.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert