Hoppandi kátur barnmargur vinningshafi

Hoppandi kátur fjögurra barna fjölskyldfaðir kom inn á skrifstofu Íslenskrar getspár í morgun, en hann var annar þeirra sem átti vinningsmiða í Lottóinu síðastliðinn laugardag. Miðann keypti hann á lotto.is.

Vinningurinn gat ekki komið á betri tíma að sögn vinningshafans þar sem fjölskyldan er stór, jólin að koma og húsnæði fjölskyldunnar við það að springa utan af þeim.  Börnin eru öll á grunnskólaaldri og því mikið líf og fjör á heimilinu. 

Í fréttatilkynningu frá Íslenskri getspá segir að vinningshafinn hafi veitt því athygli strax á laugardagskvöldið að hann væri með allar tölur réttar og væri þar með orðinn 22,6 milljón krónum ríkari.  Öskraði hann upp yfir sig og hrópaði „er þetta rétt, er þetta rétt, er þetta virkilega rétt?“  Kona mannsins kom hlaupandi til hans þar sem hún hélt að maður sinn væri að fá hjartaáfall, en sem betur fer var aðeins um gleðiöskur að ræða frá hinum lukkulega lottóvinningshafa. 

Óskar starfsfólk Íslenskrar getspár þessum heppna vinningshafa innilega til hamingju.  Eigandi hins miðans hefur ekki enn gefið sig fram og eru þeir sem keyptu sér Lottómiða hjá N1 Borgarnesi sl. laugardag því beðnir um að kíkja nú vel á miðann sinn, því þar gætu hugsanlega leynst rúmlega 22,6 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert