Starfsemi Hringrásar stöðvuð

Þegar eldur kviknaði í dekkjum við Hringrás í Klettagörðum árið …
Þegar eldur kviknaði í dekkjum við Hringrás í Klettagörðum árið 2011 var virkjuð sérstök rýmingaráætlun hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Starfsemi endurvinnslustöðvarinnar Hringrásar við Klettagarða í Reykjavík hefur verið stöðvuð af heilbrigðiseftirliti borgarinnar. Er fyrirtækið sagt brjóta gegn starfsleyfi með því að geyma of mikið efni á vinnusvæði sínu. RÚV greindi fyrst frá þessu.

Í frétt RÚV segir að slökkviliðið og heilbrigðiseftirlitið hafi skoðað aðstæður hjá fyrirtækinu í gær og komist að þeirri niðurstöðu að það væri að brjóta reglur með því að hafa meira af brotajárni og öðrum efnum á vinnusvæði sínu en heimilt er.

Könnuðu aðstæður í október

Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, segir í samtali við mbl.is að strax í morgun hafi verið gripið til ráðstafana, og fyrirtækinu bannað að taka á móti efni á svæði sitt.

Heilbrigðiseftirlitið hafði áður kannað aðstæður á athafnasvæði Hringrásar í októbermánuði.

„Við fórum í lok október og þá var þetta hér og þar aðeins yfir mörkunum. Svo á sér stað þessi bruni og við förum í eftirlit eftir það, og þá var ekki búið að bregðast við, heldur frekar búið að bæta í heldur en hitt. Því beitum við þessum aðgerðum gagnvart þeim núna.“

Þá segir hún að nú hvíli á fyrirtækinu að bæta úr þessum málum fyrir næstu skoðun eftirlitsins.

„Þeir fara ekki í gang fyrr en við leyfum það.“

Starfsleyfið veitt með takmörkunum

Aðspurð segir hún staðsetningu starfseminnar ekki góða, en þar hafa orðið að minnsta kosti sex brunar á þessari öld.

„Hún er náttúrulega þarna nærri íbúðabyggð og öðrum fyrirtækjum. Þess vegna er starfsleyfið sem við veitum þeim með þessum takmörkunum, sem nú hefur verið brotið á.“

Eldur kviknaði á svæði Hringrásar í fyrrakvöld, eins og mbl.is greindi frá.

Frétt mbl.is: Eldur í Hringrás

Frá eldsvoða í Hringrás. Mynd úr safni.
Frá eldsvoða í Hringrás. Mynd úr safni. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Myndavélar ekki settar upp

Þá sagði Jón Viðar Matth­ías­son, slökkviliðsstjóri höfuðborg­ar­svæðis­ins, í samtali við mbl.is í gær að meira hefði verið af efnivið á safn­haug­un­um sem þar eru, en leyfi­legt er sam­kvæmt regl­um.

Einnig hafi þá verið tölu­vert af hlut­um eins og járni og gám­um á at­hafna­svæði fyr­ir viðbragðsaðila, sem gerði starfi slökkviliðsins erfiðara um vik.

Ekki var heldur búið að setja upp hita­mynda­vél­ar á svæðinu sem greina óvenju­lega hita­mynd­un og senda boð um hana. Sam­kvæmt áhættumati á bruna­vörn­um á svæðinu, sem var gert fyr­ir nokkr­um árum, var sagt til um að það þyrfti að koma upp slík­um vél­um.

„Það má ekki gleyma því að það er hlut­verk hvers rekstr­araðila að halda sig inn­an þeirra marka sem talað er um,“ sagði Jón Viðar.

Frétt mbl.is: Segir Hringrás hafa brotið reglur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert