„Þyngra en tárum taki“

Foreldrafélag Réttarholtsskóla lýsir miklum áhyggjum af stöðu kennara við skólann.
Foreldrafélag Réttarholtsskóla lýsir miklum áhyggjum af stöðu kennara við skólann. mbl.is/Árni Sæberg

„Stjórn foreldrafélags Réttarholtsskóla lýsir þungum áhyggjum af stöðu grunnskólakennara og nýgerðum kjarasamningum sem virðast ekki til þess fallnir að draga úr óánægju kennara með kjör sín.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn foreldrafélags Réttarholtsskóla. 

Strax eftir kynningu samningsins sögðu átta kennarar í Réttarholtsskóla upp störfum. „Það er þyngra en tárum taki að horfa á bak slíkum framúrskarandi kennurum úr starfsliði skólans.“ Segir stjórnin félagsins um þau tíðindi.  

Frétt mbl.is: „Sorg­artíðindi fyr­ir skól­ann“

Stjórn foreldrafélagsins telur vandséð hvernig hægt verði að halda eðlilegu skólastarfi áfram þegar uppsögn þessara kennara tekur gildi í mars. „Því skóli er ekkert annað en mannauður – án hans er ekkert skólastarf!,“ segir í tilkynningunni og jafnframt bent á að: „Samninganefndir sveitarfélaganna virðast ekki átta sig á því hversu mikil verðmæti eru fólgin í slíkum mannauð þá gerum við, foreldrar og forráðamenn barna í Réttarholtsskóla, okkur grein fyrir því að slíkir kennarar eru ekki á hverju strái.“

Foreldrafélagið skorar á sveitarfélögin að skoða afstöðu sína til gildi menntunar og hækki laun kennara. „Aðeins þannig er hægt að forða grunnskólum landsins frá áframhaldandi flótta reyndra og hæfra kennara úr stéttinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert