„Ekkert fúsk og engan flumbrugang“

Píratarnir Einar Brynjólfsson, Smári McCarthy og Birgitta Jónsdóttir.
Píratarnir Einar Brynjólfsson, Smári McCarthy og Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Við viljum ekkert fúsk og engan flumbrugang og við viljum vanda okkur. Við vitum að góðir hlutir gerast hægt og því tökum við okkur tíma í þetta,“ segir Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, þingmaður Pírata, spurður út í viðræður um stjórnarmyndun.

Þingflokkur Pírata hefur fundað alla helgina. Í dag fór flokkunin fyrst og fremst yfir ríkisfjármálin og í gær var helst rætt um verkferla. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, veitti Birgittu Jónsdóttur og Pírötum umboð til stjórnarmyndunar á föstudaginn. 

Píratar hafa ekki ákveðið neina formlega fundi við aðra stjórnmálaflokka. Það gæti mögulega legið fyrir á morgun, að sögn Einars. Um helgina hafa þeir ekki hitt þingmenn annarra flokka heldur átt í óformlegum samskiptum. 

Einar segir að vissulega sé tímabært að mynda ríkisstjórn því mögulega stefni í stjórnarkreppu. Sitjandi ríkisstjórn er starfstjórn sem hefur takmarkað umboð.  Í þessu samhengi bendir hann á að myndun ríkisstjórnar taki tíma því þingflokkarnir þurfi tíma til að kynnast og vísar hann til þess hversu margir nýir þingmenn eru í mörgum þingflokkum. „Persónur og leikendur í þessu eru mikið til nýtt fólk á þingi,“ segir Einar. 

Einar er vongóður um að það gangi betur í þetta skipti að mynda fimm flokka ríkisstjórn frá vinstri. Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sagði í kvöldfréttum RÚV að farið væri í viðræður um ríkisstjórn út frá miðjunni og til hægri og vinstri. Spurður hvort haft hafi verið samband við Sjálfstæðisflokkinn segist Einar ekki vita til þess og vísar til óformlegs spjalls á milli allra flokka. „Okkar fyrsta val er að halda áfram með viðræður þessara fimm flokka,“ bætir hann við. 

Píratar hafa ekki ákveðið hversu langan tíma þeir ætla að gefa sér í að reyna að mynda ríkisstjórn. Hann ítrekar að flokkurinn vilji fara sér að engu óðslega í þessum efnum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert