„Ég átti satt að segja ekki von á þessu“

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sest í stól forseta á …
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sest í stól forseta á þingfundi í dag. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í forgrunni. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég er auðvitað bara mjög þakklátur og ánægður með þetta,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is en hann var kjörinn í embætti í dag með 60 atkvæðum af 63. Þar af voru tveir fjarverandi og einungis einn greiddi atkvæði gegn framboði hans. Steingrímur segir að svo afgerandi kosning hafi verið ánægjuleg þó að aðstæður væru vissulega óvenjulegar.

„Ég átti satt að segja ekki von á þessu, að þetta yrði nánast fullt hús,“ segir Steingrímur. Hann var einn af varaforsetum þingsins á síðasta kjörtímabili og segir aðspurður að sú reynsla komi sér ágætlega núna. Þá búi hann óneitanlega að talsverðri þingreynslu og þekki störf Alþingis eiginlega frá öllum hliðum. Allt eigi þetta vafalaust eftir að koma að góðum notum.

„Mér þykir bara vænt um þetta enda þykir mér vænt um Alþingi. Ég hef helgað þessari stofnun nánast alla mína starfsævi þannig að það verður gaman að takast á við þetta. Ég er alveg tilbúinn til þess en hvað síðan verður sjáum við bara til með,“ segir hann, spurður hvort hann geti hugsað sér að gegna embættinu áfram næstu árin verði stuðningur við það.

Væri sáttur við að sinna hlutverkinu áfram

„Ég var alveg reiðubúinn að taka þetta að mér núna í ljósi aðstæðna,“ segir Steingrímur. Það hafi kannski legið að einhverju leyti beint við að leita til reynslumesta þingmannsins í þeim efnum. „Ég geri fastlega ráð fyrir því að ég yrði alveg sáttur við að sinna þessu hlutverki áfram. En það er allt vitanlega með fyrirvara um það að við vitum ekki alveg hvernig þetta skipast allt saman. Þannig að við tökum bara einn dag í einu,“ segir Steingrímur og hlær.

Steingrímur settist fyrst á þing árið 1983 og hefur átt sæti þar síðan. Einn núverandi þingmaður tók sæti á Alþingi árið 1999, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar. Hún sat upphaflega á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn en hætti á þingi 2013. Hún var síðan kosin aftur á þing í kosningunum í haust.

Þrír þingmenn tóku sæti á þingi 2003; Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson og Guðlaugur Þór Þórðarson, allt þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert