Markús tilkynnti um viðskiptin

Markús Sigurbjörnsson ásamt þáverandi forseta, Ólafi Ragnari Grímssyni.
Markús Sigurbjörnsson ásamt þáverandi forseta, Ólafi Ragnari Grímssyni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, tilkynnti nefnd um dómarastörf um öll viðskipti sín með hlutabréf í Glitni. Bréf þess efnis séu til hjá nefndinni. Þetta er haft eftir Hjördísi Hákonardóttur, formanni nefndarinnar, í frétt Ríkisútvarpsins.

Fram kemur í fréttinni að tilkynningar um viðskipti Markúsar hafi upphaflega ekki fundist hjá nefndinni sem haldi utan um slíkar upplýsingar. Hjördís Hákonardóttir, formaður nefndarinnar, staðfestir í bréfi til RÚV að Markús hafi tilkynnt um öll umrædd hlutabréfaviðskipti. Bréf þar um séu til hjá nefndinni. Þar af hafi eitt þeirra hafi fundist í gærkvöldi.

Fjallað var um viðskipti Markúsar í Kastljósi Ríkisútvarpsins í gærkvöldi og kom þar fram að hann hefði ekki tilkynnt viðskiptin til nefndar um dómarastörf. Hins vegar kom einnig fram að lítið skipulag virtist hafa verið á skráningu slíkra tilkynninga. Markús fullyrti að hann hefði tilkynnt um viðskiptin með bréfum til þáverandi formanna nefndarinnar.

Vangaveltur hafa verið uppi um það hvaðan upplýsingar um viðskipti Markúsar komi. Haft er eftir Fjármálaeftirlitinu í frétt Ríkisútvarpsins að starfsmenn fjármálafyrirtækja séu lögum samkvæmt bundnir af þagnarskyldu um allt það sem þeir fái vitneskju um í þágu fyrirtækjanna. Sá sem veiti slíkum upplýsingum viðtöku sé einnig bundinn af þagnarskyldu. Brot gegn þessum ákvæðum varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

mbl.is