Líkir fjárlagafrumvarpi við hamfarir

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Golli

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 vera gífurleg vonbrigði og í rauninni algjörar hamfarir.

Í frumvarpinu kemur fram að Landspítalinn fái 3,9 milljörðum meira í framlög á næsta ári miðað við yfirstandandi ár. Heildarframlög til spítalans verða tæplega 59,3 milljarðar króna, samkvæmt frumvarpinu.

Þörf á 12 milljörðum

Páll segir að um þrír milljarðar af þessum tæplega fjórum fari í launahækkanir og verðlagsuppbætur. „Það eru samt að koma 800 milljónir inn en á móti kemur að sú þörf sem við höfum rætt um er allt að 12 milljarðar króna, ef fjármagna ætti rekstur, innviði, menntun og mannauð og vísindi á fullnægjandi hátt,“ segir hann.

„Jafnvel þótt við frestum öllu sem ekki er bráðnauðsynlegt þá er eftir gat sem við þurfum að hagræða á móti upp á 5,3 milljarða. Þar vega stærst 1.400 m.kr. halli sem stefnir í á þessu ári og flyst með okkur, 1.400 m.kr. aftur á næsta ári, vegna sömu þátta, kostnaðarauki vegna áframhaldandi sívaxandi verkefna (fyrst og fremst tengdum fjölgun og öldrun þjóðarinnar) sem við áætlum 2.100 m.kr. byggt á reynslu síðustu ára.“

Stjórnmálamenn ekki að hlusta

Hann segir ljóst að stjórnmálamenn hafa ekki verið að hlusta á umræðuna í samfélaginu um fjárþörf Landspítalans. Hann nefnir skýrslu erlenda úttektaraðilans McKinsey þar sem kom fram að hvert verk á Landspítalanum kosti 52% minna en á sambærilegum sjúkrahúsum í Svíþjóð.

Frétt mbl.is: Vilja innleiða umbætur á 4 árum

„Við erum að standa okkur býsna vel en það er mikið rætt þar um að það þurfi að fara að gefa inn. Að auki hafa 90 þúsund landsmenn því sem næst skrifað undir kröfu um að heilbrigðismál verði sett í forgang. Það er nokkuð ljóst að þeir sem sömdu þetta fjárlagafrumvarp hafa ekki verið að hlusta á þessa hluti né heldur á okkar mjög skýru greinargerðir um fjárþörf Landspítala,“ segir Páll og bætir við að sparnaðarkrafan núna sé á pari við það sem farið var í á versta sparnaðarárinu eftir hrun. „Við höfum talað mjög skýrt tel ég en það er alveg ljóst að menn hafa ekki verið að hlusta.“

Páll segir að grípa verði til fjöldauppsagna á Landspítalanum miðað …
Páll segir að grípa verði til fjöldauppsagna á Landspítalanum miðað við óbreytt fjárlagafrumvarp. mbl.is/Ómar Óskarsson

Landspítalinn ekki á góðum stað

Páll bendir á að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi nýlega talað um að þjóðin standi á góðum stað í dag. „Ég veit ekki hvað hann er að tala um þar. Það gildir alla vega ekki um Landspítalann sem er rúmlega fimm þúsund manna vinnustaður og þjóðarsjúkrahúsið, þangað sem á annað hundrað þúsund landsmanna leita árlega. Sá hluti þjóðarinnar sem vinnur þar og nýtur þjónustu þessa sjúkrahúss er þá ekki á góðum stað,“ segir hann, verði fjárlagafrumvarpinu ekki breytt.

Fjöldauppsagnir og skert þjónusta

Spurður hvort hann vonist til að nýtt Alþingi geri breytingar á frumvarpinu segir Páll að það verði að fjármagna málaflokkinn. Ekki þýði endalaust að undirfjármagna og búast við kraftaverkum.

„Þetta fjárlagafrumvarp óbreytt þýðir gríðarlegan niðurskurð, fjöldauppsagnir og að skerða þarf þjónustu allverulega. Það er þá ákvörðun stjórnmálamannanna að gera það en það kemur vissulega á óvart í ljósi þeirrar áherslu sem landsmenn hafa lagt á þennan málaflokk og í ljósi þess hvernig menn töluðu hér fyrir kosningar í öllum flokkum,“ segir hann. „Þetta er í rauninni hamfarir þetta fjárlagafrumvarp.“

mbl.is

Bloggað um fréttina