Tilfinningar fram yfir grjótharðar staðreyndir

Bretar kusu með því að segja sig úr Evrópusambandinu í ...
Bretar kusu með því að segja sig úr Evrópusambandinu í júní þrátt fyrir að lítill fótur hafi verið fyrir mörgum fullyrðingum talsmanna þess. AFP

Margt sameiginlegt var með orsökum niðurstöðu Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi og kjörs Donalds Trump sem forseta Bandaríkjanna. Á fundi stjórnmálaskýrenda í Háskóla Íslands kom fram að hvoru tveggja byggði mikið á tilfinningum en minna á grjóthörðum staðreyndum.

Eftir þann árangur, sem kosningabarátta þeirra sem studdu útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, þvert á ráðleggingar sérfræðinga, og lýðskrumarans Donalds Trump í Bandaríkjunum, náði hefur verið talað um svonefnd stjórnmál eftirsannleikans. Þeim er lýst sem stjórnmálamenningu þar sem höfðað er til tilfinninga og staðreyndir bíta ekkert á ítrekuðum ósönnum fullyrðingum. 

Jóhanna Jónsdóttir, doktor í Evrópufræðum frá Cambridge-háskóla, og Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt við stjórnmálafræðideild HÍ, ræddu um kjör Trump og Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslu undir formerkjum stjórnmála eftirsannleikans á opnum fundi í háskólanum í dag.

Sigur þeirra sem vildu að Bretar gengju úr Evrópusambandinu kom á óvart líkt og kjör Trump í Bandaríkjunum enda höfðu skoðanakannanir bent til gagnstæðrar niðurstöðu. Jóhanna sagði að margt hefði verið sameiginlegt með þessum tvennum kosningum.

Líkt og hjá kjósendum Trump hafi menntun verið helsti skýringarþátturinn í Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunni. Fólk með lægri menntun hafi verið líklegra til þess að kjósa með Brexit. Eins hefðu þeir sem áttu undir högg að sækja efnahagslega frekar kosið með breytingum sem útgangan fæli í sér, þeir tekjulægri og þeir sem eldri eru.

Donald Trump sigraði í forsetakosningunum vestanhafs í síðasta mánuði þrátt ...
Donald Trump sigraði í forsetakosningunum vestanhafs í síðasta mánuði þrátt fyrir að honum rataðist varla satt orð á munn í kosningabaráttunni. AFP

Staðreyndir á reiki í herferðinni

Líkindunum lauk hins vegar ekki þar. Jóhanna lýsti orðræðu Brexit-sinna sem hafi verið öll á þá leið að allt væri að fara úr böndunum í Bretlandi og nauðsynlegt væri að snúa aftur til einfaldari tíma þegar landið var stolt og sjálfstæð þjóð. Innan ESB væri Bretland í raun ekki sjálfstætt þar sem það þyrfti að taka upp lög sambandsins og lúta niðurstöðum evrópskra dómstóla. Líkt og Trump hefðu talsmenn Brexit talað um gildi þess að gera viðskiptasamninga við önnur ríki.

Þá voru það innflytjendamál sem flestir þeir sem kusu með Brexit nefndu sem mikilvægustu ástæðu ákvörðunar sinnar. Jóhanna sagði að líkt og í Bandaríkjunum hafi innflytjendamál leikið stórt hlutverk í herferðinni. Orðræðan í kringum þau mál hafi mikið byggst á tilfinningum og hræðslu, jafnvel svo mikið að íhaldsmönnum sem studdu útgöngu hafi þótt hún óþægileg.

Mikið hafi verið talað um að Bretar þyrftu að taka aftur upp landamæraeftirlit en staðreyndin sé sú að þeir standi utan Schengen-samstarfsins og hafi því landamæraeftirlit. Talað hafi verið um svonefndan bótatúrisma fólks frá fátækari ríkjum ESB sem kæmu til Bretlands til að þiggja bætur. Flestar kannanir bentu hins vegar til þess að innflytjendur frá ESB-ríkjum væru líklegri til að vera í vinnu og ólíklegri til að þiggja bætur en breskir borgarar.

Eins var málflutningur Brexit-sinna í kosningabaráttunni gagnrýndur þar sem hann var talinn misvísandi. Þannig benti Jóhanna á rútu sem ferjaði talsmenn útgöngu á milli staða en á hana var letruð fræg auglýsing þar sem fullyrt var að Bretar sendu daglega 350 milljónir punda úr landi til Evrópusambandsins. Það fé mætti frekar nota í heilbrigðiskerfið.

Inn í þá tölu hafi hins vegar ekki verið reiknað hvað Bretar fengu til baka í gegnum styrki og áætlanir ESB, sparnað við það að hafa aðgang að innri markaði sambandsins auk þess að óljóst væri hvort að þessi fjárhæð rynni í heilbrigðiskerfið jafnvel þótt Bretar segðu skilið við sambandið.

„Þetta var ein af birtingarmyndum eftirsannleikans í þessari herferð,“ sagði Jóhanna. „Hún byggði mikið á tilfinningum og minna á grjóthörðum staðreyndum.“

Á von á að bylgjan gangi niður með sviknum loforðum

Í pallborðsumræðum eftir erindin sagðist Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við HÍ, ekki trúaður á að þessi svonefnda eftirsannleiksstjórnmálamenning hafi ráðið úrslitum. Innihaldslaus loforð séu ekki einkaeign Brexit og Trump.

Þess í stað sagði hann niðurstöðurnar vísbendingu um kreppu í kapítalísku kerfi. Komið væri að endalokum hins endalausa vaxtar. Úr grasi séu að vaxa kynslóðir sem geti ekki ímyndað sér að þær hafi það betra en þær sem á undan þeim komu. Það brjótist út í vantrú á framtíðina og ótta um að missa völd sem ef til vill voru aldrei til staðar.

Guðmundur sagði að horfast þyrfti í augu við að ekki hafi verið hlustað á þetta fólk. Vopn þeirra veiku sé kjörseðillinn og þeir sem kunni að leika á þá geti nýtt sér það. Ýmislegt í orðræðu Trump minnti á fasisma en Guðmundur sagðist þó ekki telja Trump sjálfan vera fasista enda væri erfitt að koma fingri á hvað hann væri í raun.

„Ég á frekar von á að bylgjan gangi niður þegar ljóst verður að hæfileikalausir lýðskrumarar geta ekki staðið við loforðin,“ sagði hann.

Umræðan um Brexit var sögð einkennast meira af tilfinningum en ...
Umræðan um Brexit var sögð einkennast meira af tilfinningum en staðreyndum. AFP

Ekkert nýtt við öflin sem sigruðu

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, var aftur á móti þeirrar skoðunar að sigrar Brexit-sinna og Trump væru í raun engin raunveruleg breyting þegar litið væri til sögunnar. Fólki væri tíðrætt um að Brexit og sigur Trump þýði endalok viðskiptafrelsis, frelsis á Vesturlöndum og jafnvel mannréttinda. Sjálfur teldi hann það allt saman ofsagt.

Ný valdablokk væri ekki tekin við heldur hefði fylgissveifla í átt að gamalli blokk átt sér stað. Í Bretlandi hafi Margaret Thatcher ráðið ríkjum í átján ár og orðræðan þar hafi verið andsnúin minnihlutahópum og andstaða við mannréttindadómstól Evrópu hafi verið hörð. Miklar efasemdir hafi nær alla tíð verið um Evrópusamstarfið í Bretlandi og engin stórtíðindi væru í því fólgin að Bretar væru andsnúnir Evrópusambandinu.

Í Bandaríkjunum hafi sama verið uppi á teningnum í valdatíð Ronalds Reagan og síðar Bush-feðganna. Nú hefði Trump meðal annars skipað margt af sama fólkinu og vann fyrir Reagan og Bush eldri. Orðræðan hafi kannski breyst en þetta sé fólk með sömu viðhorf og áður. Í stað þess að beina spjótum sínum að kommúnistum og samkynhneigðum áður séu innflytjendur nú skotspónn orðræðunnar.

Sprettur úr vantrausti á stjórnmálamönnum og stofnunum

Á öndverðum meiði var Hulda Þórisdóttir stjórnmálasálfræðingur sem taldi að umfang þessarar eftirsannleiksorðræðu væri nýtt, að minnsta kosti í þeim mæli sem nú sæist.

Rakti hún það til þess að traust til stjórnmálamanna og stofnana samfélagsins, þar á meðal fjölmiðla og gáfumanna, hefði fari þverrandi í vestrænum samfélögum. Inn í það tómarúm komi samfélagsmiðlar á harðahlaupum og bjóði upp á alls kyns túlkanir á sannleikanum. Það falli í frjóan farveg við þessar aðstæður.

Hulda sagði að fólk væri þá komið í þá stöðu að það treysti stjórnmálamönnum og kerfinu lítið, það hefði ef til vill litla menntun og forsendur til gagnrýninnar greiningar, það væri óánægt og neikvætt. Því væri fólk tilbúið að trúa neikvæðum hlutum.

Í því samhengi nefndi hún að svonefnd staðfestingarskekkja væri þekkt fyrirbæri þar sem fólk leitaði allra leiða til að selja sjálfu sér það sem það vill trúa.

„Ef staðreyndirnar eru ekki nógu öflugar gagnvart fólki munu tilfinningar, það sem fólk vill trúa, vinna,“ sagði hún.

Allt væri stútfullt af röngum upplýsingum og engin leið væri fyrir fólk sem hefði takmarkaðan tíma, bjargir eða menntun að vinna úr þeim. Þar með vinni það sem fólk vilji trúa og fólk verði enn sannfærðara í sinni afstöðu. Reyni einhver að sannfæra það fólk með staðreyndum sýni reynslan að slíkt herði það enn frekar í skoðunum sínum.

Baldur taldi hins vegar of mikið gert úr hlut fjölmiðla og misvísandi upplýsinga. Vísaði hann þar til langrar hefðar flokksblaða, til dæmis á Íslandi. Það væri ekki sannleikurinn sem skipti máli, heldur það sem fólk trúir.

mbl.is