Öll erindi frá 2010 skráð hjá nefndinni

Hæstiréttur íslands.
Hæstiréttur íslands. mbl.is/Þórður

Öll erindi frá árinu 2010 hafa verið skráð hjá nefnd um dómarastörf. Kemur þetta fram í bréfi sem Hjördís Hákonardóttir, formaður nefndar um dómarastörf, sendi á fjölmiðla.

Þar segir að öll öll erindi til nefndarinnar, hvort sem um er að ræða kvartanir frá þeim sem telja að dómari hafi brotið á þeim í starfi sínu, erindi frá dómurum vegna tilkynninga um aukastörf og eignarhluti í félögum og atvinnufyrirtækjum, sem og bréf nefndarinnar til dómara þar sem kallað hefur verið eftir upplýsingum frá þeim verið skráð hjá nefndinni. Þar eru jafnframt skráð svör nefndarinnar við erindum og úrskurðir hennar í einstökum málum. Þá eru álit nefndarinnar birt á vef dómstólaráðs domstolar.is

Nefndin hefur einnig unnið að skráningu eldri erinda sem henni bárust fyrir árið 2010 og er þeirri skráningu að mestu lokið. Það er því ekki unnt að fallast á það að skráningu mála sé nú ábótavant hjá nefndinni.

Þá er rétt að taka fram að með nýjum lögum um dómstóla sem taka eiga gildi í byrjun árs 2018 mun nefndin hafa aðstöðu hjá dómstólasýslunni sem tekur við af dómstólaráði. Er því hafinn undirbúningur að aðlögun málaskrár nefndarinnar að málaskrá dómstólasýslunnar.

mbl.is