Hækkuninni beint gegn ferðamönnum

Flestir borgarbúar sem stunda laugarnar eru með skiptakort. Ferðamenn eru …
Flestir borgarbúar sem stunda laugarnar eru með skiptakort. Ferðamenn eru hins vegar í meirihluta þeirra sem kaupa staka sundlaugaferð. mbl.is/Eva Björk

Hækkunum á verði sundlaugaferða í Reykjavík er aðallega beint gegn ferðamönnum, en eftir áramót hækkar verð á stakri sundferð úr 900 kr. í 950.

„Við erum í raun að hækka mjög lítið,“ segir Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri ÍTR. „Barnakort og árskort barna hækka ekki neitt. 10 miða kortið, sem selst langmest, hækkar um 2,4% og 20 miða kortið hækkar svipað.“

Frétt mbl.is: Borga 950 kr. í sund eftir áramót

Stakur barnamiði hækkar svo úr 140 kr. í 150 kr., sem svarar til 7,1% hækkunar. „Það kemur svolítið illa út prósentulega, en verðið á þessum miða er búið að vera óbreytt í mörg ár,“ segir Steinþór og bætir við að með því að kaupa skiptakort komist börn upp að 18 ára aldri í sund fyrir 97 kr. í hvert skipti.

Greiða með rekstri sundlauganna

Reykjavíkurborg hækkaði í nóvember í fyrra gjald fyrir staka sundferð fullorðinna úr 650 kr. í 900 kr. og segir Steinþór hækkunina ekki hafa dregið úr á aðsókn að laugunum. Fleiri hafi hins vegar fjárfest í miðakortum, enda sé reynt að hafa verð afsláttarkortanna í lágmarki, en ná þessi í stað inn tekjum af ferðamönnum sem sveitarfélögin hafi annars ekki miklar tekjur af.

Kort/mbl.is

Líkt og töflurnar sýna hefur þeim sem velja að greiða fyrir staka ferð í sund fækkað töluvert frá því í fyrra. Í júlímánuði 2015 nálgaðist fjöldi þeirra sem keypti staka sundferð 40.000, en á sama tíma í ár voru þeir rúmlega 30.000.

Spyrja hvort þeiri eigi ekki að borga fyrir heita vatnið 

Tekjur borgarinnar vegna stakrar sundferða hafa þó hækkað á tímabilinu og námu þannig tæpum 30 milljónum í júlí í ár, miðað við rúmar 20 milljónir á sama tíma í fyrra.

Kort/mbl.is

„Það eru ferðamennirnir sem eru að borga staka gjaldið og við, eins og aðrir, erum að greiða með rekstri sundlauganna. Það er því talið eðlilegt að reyna að ná inn gjaldi af ferðamönnum,“ segir hann. „Þetta er sambærilegt og fyrir sambærilega þjónustu í löndunum í kringum okkur. Þar eru það heimamenn sem kaupa sér afsláttarkortin og njóta góðs af því.“

Steinþór segir þessa áætlun til að fá auknar tekjur af ferðamönnum ganga nokkuð vel eftir. „Þeim finnst þetta ekki vera mikill peningur og hafa jafnvel spurt starfsfólk hvort þeir eigi ekki að borga aukalega fyrir læstan skáp eða allt heita vatnið í sturtunum."

Erlendir ferðamenn 30-35% gesta Laugardalslaugar 

Logi Sigurfinnsson, forstöðumaður Laugardalslaugar og Sundhallarinnar, staðfestir að hækkun á verði stakri sundferð hafi ekki dregið úr aðsókn. „Reynslan frá því í fyrra var að þetta hefði mjög lítil neikvæð áhrif á gesti og starfsmenn í afgreiðslu höfðu orð á því að þetta hefði bara gengið vel fyrir sig,“ segir hann.

„Tilfinningin er sú að langflestir þeir sem eru að greiða staka gjaldið eru ferðamenn sem eru að kíkja í laugina í eitt-tvö skipti.“

Logi segir aðsókn að Laugardalslauginni, þar sem á bilinu 30-35% gesta eru erlendir ferðamenn, bara halda áfram að aukast.

Gert er ráð fyrir að aðsókn ferðamanna að Sundhöllinni muni líka aukast næsta haust, þegar taka á nýja útilaug í notkun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert