„Grínagtugt“ komi Píratar Katrínu í stjórnarráðið

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar.
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það mun í besta falli verka grínagtugt og í versta falli hlægilegt af það verður Birgitta sem kemur Katrínu Jakobsdóttur í stjórnarráðið eftir að henni mistókst það sjálfri vegna þreytu,“ segir Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hann fjallar um yfirstandandi óformlegar stjórnarmyndunarviðræður fimm flokka undir verkstjórn Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata.

Vísar Össur þar til fyrri tilraunar til þess að mynda ríkisstjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG. Rifjar hann upp að bæði Birgitta og Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hafi sett fram gagnrýni á verkstjórn Katrínar sem hafi verið „allhörð“ en hún hafi virst „kasta handklæðinu í hringinn allt of snemma.“

Birgitta „hin ótvíræða drottning“

Össur segir að Birgitta sé „samningamaður dauðans“. Rifjar hann upp að í ríkisstjórn Samfylkingarinnar og VG hafi komið í hans hlut að semja við Birgittu og „hennar lið“ eftir að stjórnin hafi verið komin með minnihluta á þingi. „Birgitta beit og sló, spilaði á alla strengi, en horfðist jafnan í augu við veruleikann – og gerði málamiðlanir fremur en láta góð mál fordjarfast. [...] Í núverandi tafli er Birgitta sjálf hin ótvíræða drottning.

Líkurnar á ríkisstjórn flokkanna fimm fara vaxandi að mati Össurar enda virðist fyrirstaðan ekki vera mikil. „Gefi VG eftir varðandi útboð á aflaheimildum verður auður sjór til lands. Auðvelt er að semja um Evrópu, landbúnaðarmál og stjórnarskrá. Hækkanir á sköttum ráðast af þörf ríkisins fyrir fjármagn.“ Verði þeim slitið vegna skattamála verði það „hrein klækjapólitík sem beitt er beinlínis í þeim tilgangi að ónýta viðræðurnar.“

Birgitta sé hins vegar að gera allt rétt. „Egódrottningin hefur vikið fyrir hinum blíða og alltumlykjandi sáttasemjara. Og ef Birgittu tekst að lemja þetta saman – hví skyldi hún þá ekki verða forsætisráðherra? Eins og málin hafa þróast er það satt að segja ekki vitlausasta niðurstaðan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert