Ekki fengið greiddar 30-40 milljónir

G&M vann meðal annars að byggingu sjúkrahótels á lóð Landspítalans …
G&M vann meðal annars að byggingu sjúkrahótels á lóð Landspítalans við Hringbraut. mbl.is/Styrmir Kári

Þó að starfsmenn pólska verktakafyrirtækisins G&M hafi fengið útistandandi mánaðarlaun sín greidd eftir að þeir gengu út í október hafa þeir enn ekki fengið greitt á bilinu 30-40 milljónir í vangoldna yfirvinnu. Tilraunir til að ræða við fyrirtækið hafa engu skilað og er nú svo komið að verkalýðsfélög munu fyrir hönd starfsmannanna leita til yfirverktakans LNS Sögu. Þetta segir Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ, í samtali við mbl.is.

Frétt mbl.is: Halda eftir greiðslum til G&M

Frétt mbl.is: Verktakafyrirtæki pakkar saman og fer

Frétt mbl.is: 17 milljónir vantaði upp á

Mbl.is greindi frá því 20. október að starfsmenn G&M á höfuðborgarsvæðinu hefðu ekki mætt til vinnu vegna vanskila á launum. Fyrirtækið var undirverktaki hjá LNS Sögu, meðal annars við framkvæmdir við Hlíðarenda, sjúkrahótel Landspítalans og Garðatorg. Til viðbótar vann G&M við byggingu Þeistareykjavirkjunar fyrir Landsvirkjun. Þar hafði líka komið til vanefnda við starfsmenn.

Halldór segir að tímabundin lausn hafi fundist varðandi málið sem upp kom í október. LNS Saga hafi þá sagt að fyrirtækið myndi halda eftir hluta af greiðslu sinni til G&M og að starfsmönnunum yrði greitt það sem væri í vanskilum. Nam það tæplega 20 milljónum króna.

Halldór segir að næst á dagskrá sé að ræða við …
Halldór segir að næst á dagskrá sé að ræða við LNS Sögu. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„En eftir stendur það sem hefur safnast saman í gegnum tíðina,“ segir Halldór og vísar þar til þess að starfsmennirnir hafi ekki fengið greiddan yfirvinnutaxta fyrir vinnu sína þangað til málið komst upp í október. Segir hann að mennirnir sem hafi starfað fyrir G&M hafi ekki fengið greidda neina yfirvinnu alveg sama hvort þeir hafi unnið 50 og upp í næstum 120 tíma á viku.

Halldór segir að réttmætur greiðandi í þessari deilu sé G&M, hvort sem það sé móðurfélagið í Póllandi eða dótturfélagið sem starfaði hér á landi. Fyrst um sinn hafi stéttarfélögin fundað með fyrirtækinu, en Halldór segir að nú sé ljóst að það hafi einungis verið til að þæfa málið af þeirra hálfu. Fljótlega hafi fyrirtækið hætt að svara þeim og í byrjun nóvember var greint frá því að G&M hefði farið af landi brott og skilið starfsmenn eftir í lausu lofti.

Starfsmennirnir hættu störfum í október vegna vangoldinna launa.
Starfsmennirnir hættu störfum í október vegna vangoldinna launa. mbl.is/Styrmir Kári

Segir Halldór að því sé næst á dagskrá að ræða við LNS. Þeir hafi hingað til tekið þátt í viðræðum milli stéttarfélaganna og G&M og þá hafi þeir ábyrgst greiðslur til starfsmannanna þegar þeir komu aftur til starfa. „Nú reynir á hvort eitthvað sé að marka þessar yfirlýsingar,“ segir Halldór. Hann telur að vangoldin yfirvinna starfsmannanna 80, sem málið snýst um, telji á bilinu 30 til 40 milljónir.

Samkvæmt Halldóri hóf G&M vinnu hér á höfuðborgarsvæðinu rétt fyrir síðustu áramót, en ógreiddu yfirvinnutímarnir nái til áramótanna.

mbl.is