Birgitta skilar umboðinu

Birgitta Jónsdóttir ræddi við fjölmiðla að loknum fundi.
Birgitta Jónsdóttir ræddi við fjölmiðla að loknum fundi. mbl.is/Eggert

Forystufólk stjórnmálaflokkanna fimm sem hafa átt í óformlegum viðræðum um stjórnarmyndun hefur ákveðið að slíta viðræðunum.

Birgitta Jónsdóttir, formaður Pírata, hittir forseta Íslands á Bessastöðum klukkan 17 í dag þar sem hún mun skila umboðinu til stjórnarmyndunar.

Þetta kom fram að loknum fundi þeirra á nefndarsviði Alþingis sem stóð yfir í um tvær klukkustundir.

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, að loknum fundi í dag. Hún mun hitta forsetann klukkan 17. mbl.is/Eggert

Birgitta sagði niðurstöðuna vera vonbrigði. „En það er bara þannig að ef fólk treystir sér ekki til þess að fara það langt út fyrir þægindarammann er ekki hægt að þrýsta á að fólk sé að fara í samstarf án þess að hafa sannfæringu fyrir því að það sé að framfylgja þeim kosningaloforðum sem það var kosið á þing fyrir.“

Spurð nánar út í hvers vegna hafi slitnað upp úr viðræðunum sagði hún að ekki hefði verið hægt að ná sátt um útfærsluna á sjávarútvegsmálunum.  Flokkarnir hafi samt sem áður verið sammála um megintilganginn. Einnig hafi flokkarnir ekki náð sátt um útgjaldalið ríkisins.

Birgitta sagði alla hafa lagt mikið á sig og vandað sig í viðræðunum. „Ég hef ennþá sannfæringu fyrir því að við gætum náð saman. En ef fólk er ekki komið á þann stað að það upplifi að það sé tilbúið til að ganga lengra þá er ekki hægt að þvinga það. Þetta er ekki í mínum eða okkar huga algjörlega fullreynt en fólk þarf svigrúm núna. Þá finnst mér rétt að einhver annar fái að taka þetta kefli," sagði hún.

„Ég hef ennþá trú á að þessir fimm flokkar geti gert ótrúlega mikilvæga hluti til umbóta í þessu samfélagi og ég er ekki að sjá nein önnur stjórnarmynstur geta gert það."

Hún sagði það ekki vera úr sögunni að þessir fimm flokkar geti myndað ríkisstjórn, þrátt fyrir að það hafi tvívegis verið reynt. Rétt sé samt að annar fái umboðið að svo stöddu. Miðað við aðferðafræði forsetans sé Framsóknarflokkurinn líklegastur til að fá umboðið til stjórnarmyndunar núna. Einnig segir hún koma til greina að þingmenn fái aftur rými þannig að allir geti talað við alla.

Birgitta sagði að mögulega þurfi að kjósa aftur. „Ég veit ekki hvort það sé skynsöm leiða eða hvort við eigum að leyfa þinginu að fara í gegnum fjárlög án þess að það sé nein ríkisstjórn. Það getur verið mjög þroskandi aðferðafræði en ég óttast að þjóðstjórnarmynstrið væri ekki gagnlegt því það þýðir að við myndum ekki gera neitt. Þá er betra að kjósa eða setja á utanþingsstjórn."

Að sögn Birgittu hafa samræðurnar á milli flokkanna verið mjög gagnlegar. „Við höfum komst mjög langt með ofboðslega marga málaflokka. Við tókum okkur nákvæmlega viku og mér finnst hægt að byggja mikið á þeirri vinnu sem nú þegar hefur átt sér stað. Þetta er gagnlegt inn í framtíðina, hvað sem gerist."

Hún bætti við núna komi tækifæri til að sýna að hægt sé að vinna á annan hátt. Framundan séu stór og erfið mál í tengslum við fjárlögin sem þurfi að fara í gegnum þingið. „Núna reynir svolítið á einhverja aðra aðferðafræði og ég vona að við getum nýtt okkur það á meðan við bíðum eftir að hér komi starfandi ríkisstjórn."

Frétt mbl.is: Telja VG vera vandamálið

mbl.is

Bloggað um fréttina