Kennarar samþykkja kjarasamninginn

Frá mótmælum kennara í ráðhúsinu í nóvember.
Frá mótmælum kennara í ráðhúsinu í nóvember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grunnskólakennarar hafa samþykkt nýjan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga. Já sögðu 55,12%, Nei 42,90% en auðir seðlar voru 81, eða 1,98%. Á kjörskrá voru 4.521 og var kosningaþátttaka 90,69%.

Frá þessu er greint á vef Kennarasambands Íslands. Skrifað var undir kjarasamninginn í húsakynnum ríkissáttasemjara 29. nóvember sl. Hann gildir frá 1. desember 2016 til 30. nóvember 2017.

Uppfært kl. 17.42:

„Hún er svona eins og ég var að vona,“ segir Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, um niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. „Það lá svo sem fyrir að það hefur verið mikill kurr á meðal félagsmanna og það hefði komið á óvart ef þetta hefði verið samþykkt með meiri mun.“

Samningurinn er til eins árs og Ólafur segir að í framhaldinu hefjist mikil vinna við að „greina það sem betur má fara“ og grípa til ákveðinna bráðaaðgerða. Brýnast segir hann að minnka álagið á kennurum og fækka verkefnum. Hann segir kennara „að springa“ eins og staðan er.

„Það verður að gerast,“ segir hann, spurður að því hvort hann sé bjartsýnn á að næsta ár verði notað til að mæta kröfum kennara, sem virðast langþreyttir á ástandinu. „Það er löngu kominn tími á að menn skoði þetta ofan í kjölinn og það verður að grípa til aðgerða,“ segir Ólafur.

Hann ítrekar að menn megi ekki láta sitt eftir liggja og það eigi ekki síður við um menntamálaráðuneytið en aðra.

Ólafur segist ekki gera sér grein fyrir því hvort samþykkt samningsins verði til þess að kennarar hætti við fyrirhugaðar uppsagnir. „Það verður að koma í ljós þegar frá líður.“

mbl.is