Samfélag og mannlegt eðli í heimsendisumhverfi

Kristján Atli Ragnarsson hefur skrifað í tuttugu ár en Nýja …
Kristján Atli Ragnarsson hefur skrifað í tuttugu ár en Nýja Breiðholt er fyrsta skáldsaga hans. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Í skáldsögunni Nýja Breiðholti segir Kristján Atli Ragnarsson frá ástandinu í Reykjavík þegar glæpagengi taka völdin eftir gríðarmikinn landflótta.

Kristján Atli hefur skrifað í tuttugu ár en Nýja Breiðholt er fyrsta skáldsaga hans. Bókin er þægilega skrifuð og afar sjónræn. Samfélag og mannlegt eðli er gagnrýnt í heimsendisumhverfinu, og hvar og hvenær sæmd manna kemur fram.

Kristján segist hafa gefið út nokkrar smásögur áður en Nýja Breiðholt kom út „og ég hef verið að skrifa alls konar skáldskap frá því að ég var unglingur að hripa niður í dagbók. Það eru tuttugu ár síðan,“ segir Kristján, en hann er meðal annars ritstjóri vefsíðunnar Kop.is sem er stuðningsmannasíða Liverpool-stuðningsmanna og hefur skrifað pistla þar í fimmtán ár.

Í bókinni segir frá atburðum í Reykjavík eftir að helmingur þjóðarinnar flýr land, fáir vita af hverju, eða hvað gerðist. Eftir mikla ringulreið og stjórnleysi rís nýtt samfélag úr ösku Reykjavíkur.

Fyrrverandi glæpagengi sem lifðu af stjórnleysið eru fljót að taka völdin og leiðtogar gengjanna stjórna sínum svæðum rétt eins og jarlar og goðar gerðu hér á landi fyrir þúsund árum. Stúlku er rænt úr Breiðholtinu og faðir hennar leggur í hættur miðbæjarins til að bjarga henni.

Nútíma Íslendingasaga

– En hvers vegna að skrifa bók á Íslandi eftir einhverskonar heimsendi?

„Mig langaði til að skrifa Íslendingasögu sem gerðist í nútímasamfélagi og fékk þá þessa hugmynd um að Ísland myndi einangrast frá umheiminum og að kynslóð síðar væri komið ákveðið jafnvægi þar sem fólk þyrfti að útdeila eigin réttlæti og gæta sín sjálft eins og til forna,“ segir Kristján. „Um leið og mér varð ljóst að ég væri með spennusögu í kollinum, framtíðartrylli, leit ég til bókmenntanna og fann fyrirmyndir sem ég gat litið til, eins og stjörnur sem ég gat siglt eftir í myrkrinu,“ segir hann og bætir við að helstu áhrifavaldar hans hafi verið bækurnar In the Country of Last Things eftir Paul Auster og The Children of Men eftir P.D. James, en báðar bækurnar gerast í heimsendisumhverfi.

Setjast niður og skrifa

Kristján býr í Hafnarfirðinum, kvæntur tveggja barna faðir. Aðspurður hvort það hafi verið erfitt að skrifa sína fyrstu bók svarar hann: „Það sem fólk kallar ritstíflu er oftast ekkert annað en skortur á aga. Þú þarft að vera skipulagður, þú þarft að vera undirbúinn og þú þarft að setjast niður og skrifa. Ljóð, ritgerð, skáldsaga, fræðirit, allt lýtur þetta sömu lögmálum. Ef þú ert ekki skipulagður veistu ekki hvað á að skrifa, ef þú ert ekki undirbúinn veistu ekki hvernig á að skrifa það og ef þú sest ekki niður og skrifar situr orðafjöldinn fastur í núlli. Þetta er spurning um aga.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert