Telja VG vera vandamálið

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Árni Sæberg

Tekin verður ákvörðun um það endanlega í hádeginu hvort hafnar verði formlegar viðræður fimm stjórnmálaflokka um myndun ríkisstjórnar. Forystumenn flokkanna, Pírata, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar, munu þá funda eftir að þingflokkar flokkanna hafa tekið afstöðu til málsins hver í sínu lagi. Þetta er önnur tilraunin til þess að mynda ríkisstjórn þessara flokka en sú fyrri rann út í sandinn í nóvember.

Fjórir af stjórnmálaflokkunum fimm hafa samþykkt að hefja formlegar viðræður um stjórnarmyndun en til þessa hafa viðræðurnar verið óformlegar. Þingflokkur VG fundaði hins vegar í allt gærkvöld og einnig í morgun en verulegar efasemdir hafa verið innan hans um viðræðurnar. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hefur þannig sagt að ekkert sé enn fast i hendi varðandi lausnir á ágreiningsmálum. Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, staðfesti í gærkvöldi að engar málamiðlanir lægju fyrir í stóru deilumálunum; ríkisfjármálum og sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.

Efasemdir VG um mögulegt stjórnarsamstarf og formlegar viðræður um það eru því skiljanlegar. Hins vegar er ljóst að hinir flokkarnir telja að ástæðan fyrir því að málamiðlanir hafi ekki nást sé VG. Björt Ólafsdóttir, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, sagði þannig í samtali við mbl.is í morgun að hinir fjórir flokkarnir væru „mjög samstíga og framsýnir.“ VG hefði hins vegar töluvert aðra stefnu í stórum málum eins og kerfisbreytingum og sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.

Flumbrugangur, þreyta og óvandvirkni

VG hefur fengið á sig töluvert af slíkri gagnrýni að undanförnu úr röðum flokkanna fjögurra. Bæði beint og óbeint. Þá ekki síst formaður flokksins. Þannig sagði Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Samfylkingarinnar, á laugardaginn að Katrín hefði gefist upp á að verkstýra fyrri stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna vegna þreytu. Grínagtugt og jafnvel hlægilegt yrði ef Birgittu tækist að koma Katrínu í forsætisráðherrastólinn í ljósi þess.

Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi og fulltrúi í viðræðunefnd flokksins, sagði í samtali við mbl.is um síðustu helgi, eftir að Birgitta hafði fengið stjórnarmyndunarumboðið frá Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands, að Píratar vildu „ekkert fúsk og engan flumbrugang“ heldur vanda sig spurður hvernig Píratar hefðu í hyggju að halda á málum sem verkstjórar stjórnarmyndunarviðræðna á milli flokkanna fimm.

Píratar hafa að sama skapi gagnrýnt Katrínu fyrir að hafa lagt áherslu á stefnu VG í fyrri stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna. Betra væri að nálgast málið frá miðjunni. Eftir að hafa tekið við stjórnarmyndunarumboðinu sagði Birgitta  að í þetta sinn sæti enginn við borðendann. Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, tók undir þessa gagnrýni. Hugsanlega væri betra að nálgast málin frá miðjunni. Þá hefur hann sagt að fyrri viðræðunum hafi verið slitið of snemma. Gefist hafi verið upp áður en þær hafi verið fullreyndar.

Viðreisn ekki lengur talin vandamálið

Katrín sagði eftir fyrri tilraunin að viðræðunum hefði verið slitið þar sem Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar hefði tjáð sér að hann hefði ekki sannfæringu fyrir þeim. Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, staðfesti eftir slit viðræðnanna að alvarlegur ágreiningur hefði verið fyrir hendi við VG og fyrir vikið hefði verið heiðarlegast að slíta þeim. Fyrst í stað tóku hinir flokkarnir undir gagnrýni Katrínar á Viðreisn en gagnrýnin virðist í seinni tíð hafa beinst í auknum mæli að VG.

Þannig gagnrýndi Birgitta Viðreisn eftir fyrri tilraunina fyrir að hafa ekki sett fram neinar tillögur á meðan VG hafi verið reiðubúin að teygja sig fram. Að sama skapi vísaði Logi Már á Benedikt þegar spurt var hvers vegna viðræðurnar hefðu ekki skilað árangri. Benedikt hefði ekki treyst sér til þess að halda áfram. Nú er ljóst að flokkarnir telja VG vera helstu hindrunina í veginum fyrir því að hægt verði að mynda ríkisstjórn flokkanna fimm. Hinir flokkarnir eigi stefnulega séð meiri samleið.

Ljóst er að af þessum fimm flokkum er lengst á milli VG og Viðreisnar eins og Logi Már nefndi í samtali við mbl.is fyrr í þessum mánuði. Hins vegar er ekki aðeins langt þar á milli heldur einnig á milli VG og Pírata að mati Birgittu. Þannig sagði hún á dögunum að styttra væri á milli VG og Sjálfstæðisflokksins en VG og Pírata en oft hefur verið rætt um að lengst væri á milli VG og Sjálfstæðisflokksins. Fleiri hafa raunar talað á þessum nótum og þannig sagði Björn Valur Gíslason, varaformaður VG, um helgina að styttra væri á milli VG og Sjálfstæðisflokksins en VG og Viðreisnar.

Hvort af formlegum viðræðum verður á milli flokkanna fimm skýrist annars væntanlega eftir fund forystumanna þeirra í hádeginu.

mbl.is