Farnir að draga uppsagnirnar til baka

Grunnskólakennarar samþykktu nýjan kjarasamning í gær með 55% atkvæða og …
Grunnskólakennarar samþykktu nýjan kjarasamning í gær með 55% atkvæða og hefur hluti þeirra kennara sem sögðu upp fyrir undirritun nú dregið uppsögn sína til baka. mbl.is/Styrmir Kári

Fjöldi kennara í Njarðvíkurskóla, Seljaskóla og Réttarholtsskóla hefur dregið uppsagnir sínar til baka undanfarna daga. Þetta staðfestu skólastjórnendur í samtali við mbl.is í dag, en um 90 kennarar höfðu sagt starfi sínu lausu áður en samninganefnd Félags grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga undirrituðu nýjan kjarasamning um síðustu mánaðamót. 

Grunnskólakennarar samþykktu samninginn í gær með 55% atkvæða gegn 43%. 

Meirihluti þeirra 20 grunnskólakennara við Njarðvíkurskóla sem sagði upp í síðasta mánuði, hefur dregið uppsagnir sínar til baka. Þetta staðfestir skólastjórinn Ásgerður Þorgeirsdóttir.

„Staðan hefur breyst mikið og til batnaðar. Það er þó ekki útséð með það hvort allir kennarar dragi uppsagnir sínar til baka,“ sagði Ásgerður. „Ég er að ræða við fólk í dag. Ég er með gott fólk hérna, mikið fagfólk, og vil ekki missa það.“

Eru enn að ræða samninginn

12 af þeim 21 kennara í Seljaskóla sem sögðu starfi sínu lausu í haust hafa dregið uppsagnir sínar til baka á undanförnum dögum.

„Ég er búin að vera úti úr húsi í allan dag, þannig að ég veit ekki hvort samþykktin hefur breytt þessu eitthvað í aðra hvora áttina,“ sagði Magnús Þór Jónsson skólastjóri.  „Talan hjá mér stendur núna í níu,“ bætti hann við og kvað níu uppsagnir í einum skóla þó vissulega vera mikið áhyggjuefni.

Magnús sagði skólayfirvöld hafa verið í sambandi við foreldra undanfarnar vikur, enda hefðu þeir vissulega áhyggjur af ástandinu.

„Ég hef sagt fólki að við viljum bíða og sjá hverju fram vindi. Þessi samþykkt er nýskeð og við vitum að fólk er enn að ræða samninginn og velta þessu fyrir sér, þannig að við ætlum að halda áfram að anda að okkur fram á nýja árið, en þá þurfum við að fá skýrari línur.“

Enginn dregið uppsögn til baka í Hólabrekkuskóla

Jón Pétur Zimsen, skólastjóri Réttarholtsskóla þar sem átta sögðu upp, segir sjö kennara nú hafa dregið uppsagnir sínar til baka. „Kennarar höfðu eflaust ólíkar ástæður fyrir að draga uppsagnir sínar til baka, en almennt held ég bara að skólasamfélagið hér hafi togað í þá að hanga inni enn þá,“ sagði Jón Pétur.

Í Dalskóla fékkst ekki upp gefið hvort þeir sex kennarar sem þar höfðu sagt upp muni halda uppsögnum sínum til streitu. Skólastjórnendur munu þó funda með hverjum og einum kennara á næstu dögum, þar sem málin verða rædd.

Engin þeirra kennara sem sagði upp í Hólabrekkuskóla hefur dregið uppsögn sína til baka, en kennarar og skólastjórnendur munu funda um málið á næstu dögum.

Ekki náðist þá í skólastjórnendur í Norðlingaskóla þar sem 12 kennarar hafa sagt upp störfum.

mbl.is