Krefjast aðildar að máli Fjöreggs og Landverndar gegn umhverfisráðherra

Boranir á Húsavík.
Boranir á Húsavík. mbl.is/Helgi Bjarnason

Eigendur 67% lands Reykjahlíðar í Mývatnssveit vilja að máli Fjöreggs og Landverndar gegn ríkinu verði vísað frá dómi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá eigendunum fimm. Þeir hafa krafist þess að fá aðild að málinu, sem Fjöregg og Landvernd höfuðu gegn umhverfis- og auðlindaráðherra.

Frétt mbl.is: Stefna umhverfisráðherra

Tilgangur málshöfðunar Fjöreggs og Landverndar er sagður að „knýja ríkið til að friðlýsa tiltekin svæði landeigenda Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi.“

Í meðalgöngustefnu landeigenda segir að Fjöregg og Landvernd hafi á engan hátt sýnt fram á að þau eigi hér lögvarinna hagsmuna að gæta en gangi á hinn bóginn gegn bæði stjórnarskrárvörðum, beinum eignarrétti landeigenda og stjórnsýslureglum með kröfum sínum og málarekstri. Aðalkröfum samtakanna beri því að vísa frá dómi og varakröfum þeirra sömuleiðis.

Í sambandi við þetta mál Fjöreggs og Landverndar benda landeigendur á stjórnsýslukæru sömu samtaka á hendur Landsneti vegna áforma um að leggja háspennulínu um land Reykjahlíðar frá Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Landeigendur segja að Landsnet hafi staðið vel og faglega að þeim línulagnarmálum. Besta línustæðið hafi verið valið frá sjónarmiði náttúruverndar. Undirbúningur, vinna og framkvæmd verkefnisins sé til fyrirmyndar.

Nái hins vegar kröfugerð í stjórnvaldskærunni fram að ganga hefði það í för með sér „nýtt línustæði og þar með tvöfalt jarðrask með afleiddu auknu tjóni á jarðmyndunum á svæðinu“. Þá sé ekki talin með áhætta af ómælanlegu, afleiddu tjóni fyrir opinbera aðila og þar með þjóðina alla vegna seinkunar á framkvæmd verksins,“ segir í tilkynningunni.

Meðalgöngustefna landeigenda verður þingfest 24. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert