Þverpólitískt frumvarp um kjararáð

Fundað er á Alþingi í dag.
Fundað er á Alþingi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frumvarp um breytingar á lögum um kjararáð verður lagt fram á Alþingi í dag. Er það aðeins lítið breytt frá síðasta löggjafarþingi, þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði það fram.

Nú eru flutningsmenn þess hins vegar formenn allra stjórnmálaflokkanna, auk Birgittu Jónsdóttur þingflokksformanns Pírata.

Í greinargerð frumvarpsins segir að með því sé stefnt að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana embættismanna, forstöðumanna og annarra þeirra sem falla undir úrskurðarvald kjararáðs. Felst það í því að fækka verulega þeim sem kjararáð ákvarðar laun og önnur starfskjör.

Ekki svar við gagnrýninni

Með fækkuninni sé þess þá freistað að hafa eingöngu í þeim hópi æðstu ráðamenn þjóðarinnar, alþingismenn, dómara og saksóknara vegna sérstöðu þeirra og þá embættismenn þar sem svo háttar til að launakjör þeirra geta ekki ráðist af nýju launafyrirkomulagi, samningum vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu, að því er fram kemur í greinargerðinni.

Frumvarpið er því ekki svar við þeirri gagnrýni sem ákvörðun kjararáðs í lok október, um að hækka laun alþingismanna, ráðherra og forseta, hefur vakið í samfélaginu. Forsvarsmenn ASÍ og ýmissa stéttarfélaga hafa lýst vanþóknun sinni á hækkuninni, auk þess sem stjórnmálaleiðtogar hafa margir tjáð sig um málið.

Katrín Jakobsdóttir sagði að eðlilegt væri að fara yfir málið …
Katrín Jakobsdóttir sagði að eðlilegt væri að fara yfir málið þegar þing kæmi aftur saman. mbl.is/Ómar Óskarsson

Finna verði annan farveg

„Þetta eru of mikl­ar hækk­an­ir, að mínu viti,“ sagði Katrín Jak­obs­dótt­ir, formaður Vinstri grænna, í sam­tali við mbl.is um ákvörðun ráðsins. „Mér finnst alla vega eðli­legt að Alþingi fari yfir málið, þegar það kem­ur sam­an.“

Ótt­arr Proppé, formaður Bjartr­ar framtíðar og Bene­dikt Jó­hann­es­son, formaður Viðreisn­ar, sögðust þá báðir nokkuð undr­andi í samtali við mbl.is.

„Mér finnst hann dá­lítið hraust­leg­ur, og ég held að það verði að finna þess­um ákvörðunum, um kjör emb­ætt­is­manna og stjórn­mála­manna, ein­hvern ann­an far­veg sem trygg­ir að sátt geti verið um niður­stöðuna, og að hún verði meira í takt við það sem al­menn­ing­ur er að fá,“ sagði þá Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

Öll eru þau nú flutningsmenn frumvarps um kjararáð, sem Bjarni Benediktsson flutti áður einn, en frumvarpið mun í engu breyta umræddri ákvörðun kjararáðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert