Fundargestir á móti kísilverinu

Frá íbúafundinum í Stapa vegna mengunar frá kísilverksmiðjunni í Helguvík …
Frá íbúafundinum í Stapa vegna mengunar frá kísilverksmiðjunni í Helguvík í kvöld. ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson

Íbúar í Reykjanesbæ lýstu persónulegri reynslu sinni af mengun frá kísilverksmiðjunni í Helguvík og áhyggjum af framtíðinni á íbúafundi sem haldinn var í Stapa í kvöld. Bæjarstjórinn segir meirihluta þeirra íbúa sem mættu á fundinn andsnúna verksmiðjunni.

Íbúar í Reykjanesbæ hafa kvartað undan óþægindum vegna mengunar sem þeir segja að berist frá kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Fyrirtækið hefur sagt að mengunin stafi af því að verið sé að kveikja á ofnum og gefið í skyn að hún muni jafna sig. Umhverfisstofnun hefur skipað því að kveikja ekki aftur á þeim eftir að slökkt var á þeim eftir vinnuslys í síðustu viku.

Fulltrúar frá fyrirtækinu, Umhverfisstofnun, sveitarfélaginu og Orkurannsóknum Keilis héldu framsögu á fundinum en opnað var fyrir spurningar eftir þær.

„Ég held að ég geti sagt að sjónarmið þeirra íbúa sem hafa talað hér í kvöld eru gegn verksmiðjunni og þessari starfsemi. Það eru svona helstu sjónarmiðin frá þeim. Það er greinilegt að mikill meirihluta þeirra sem eru mættir í Stapa eru þeim megin,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, en fundinum var enn ekki lokið þegar Mbl.is náði tali af honum kl. 22:20 í kvöld.

Aðallega kvörtuðu íbúarnir undan loftgæðum og lyktarmengun. Kjartan Már segir að fulltrúarnir á fundinum hafi reynt að svara eftir bestu getu.

Bæjarstjórinn segir að aðkoma sveitarfélagsins hafi aðeins verið sú að veita lóð undir verksmiðjuna. Sveitarfélagið muni beita áhrifum sínum til að biðja Umhverfisstofnun um að halda uppi góðu eftirliti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert