Enginn í haldi vegna hnífstungunnar

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. mbl.is/Kristinn

Karlmaður á fertugsaldri, sem handtekinn var í Hafnarfirði grunaður um hnífstungu í Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins við Digranesveg í morgun, er nú laus úr haldi lögreglu. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Enginn er því í haldi lögreglu, grunaður um árásina, að svo stöddu.

„Við erum að vinna eftir þeim vísbendingum og ábendingum sem liggja fyrir,“ segir Grímur. Fljótt hafi verið komist að því að maðurinn, sem handtekinn var, átti ekki hlut að máli.

Þá segir hann áverka konunnar ekki mjög mikla.

„Þetta er náttúrulega alltaf áfall fyrir þann sem í því lendir, en áverkarnir eru að minnsta kosti ekki lífshættulegir. Svo virðist sem blaðið hafi komið niður í handlegg hennar,“ segir Grímur.

Á að bæta framtíð fatlaðra barna

Samkvæmt upplýsingum á vef miðstöðvarinnar er hlutverk hennar að efla lífsgæði og bæta framtíð fatlaðra barna og unglinga og fjölskyldna þeirra.

„Markmiðið með starfseminni er að tryggja að börnum og unglingum með alvarlegar þroskaraskanir og fatlanir bjóðist greining, ráðgjöf og önnur úrræði sem miða að því að auka möguleika þeirra til sjálfstæðis á fullorðinsárum.

Helstu þroskafrávik sem leiða til tilvísunar á Greiningar- og ráðgjafarstöð eru þroskahömlun, einhverfurófsraskanir og hreyfihamlanir. Stofnunin veitir börnum með flóknar eða sjaldgæfar fatlanir eftirfylgd og ráðgjöf til lengri tíma.“

Frétt mbl.is: Kona stungin með hníf í Kópavogi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert